14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

19. mál, verðtollur

Guðlaugur Guðmundsson:

Hv.þm. Rvk. (L. H. B.) hefði ekki þurft að lesa upp fyrir mér þetta fyrsta barnastafrof allrar tollheimtu. Hann hefði heldur átt að tala um vafaatriðin og erfiðleikana við tollheimtuna, einkum hvernig hægt sé að forðast þá áhættu og ábyrgð sem á tollheimtumönnum hvílir í stórum umdæmum.

Nú eru 6 ár síðan hinn hv. þm. var sýslumaður og á þeim 6 árum hefir tollheimtan aukist afar mikið og breyzt, einkum fyrir þá sök að innflytjendum á tollskyldum vörum hefir fjölgað mjög mikið. Áður fluttu engir inn vörur, jafnvel í fjölmennum umdæmum, nema stærri verzlanir og einstöku efnamenn, sem engin hætta var á að tollur tapaðist. En á síðari árum hefir þotið upp sœgur af smáverzlunum sem panta tollvörur, og auk þess eru hinir og þessir, ef til vill sumir miður ráðvandir menn, farnir að panta fyrir sjálfa sig og aðra og hefir þetta gert tollheimtuna ógreiðari og áhættumeiri en hún var áður. Þegar eg var sýslumaður í Skaftafellssýslu fyrir 8 árum, þá nægði mér sú aðferð sem hv. 1. þm. Rv. lýsti, og var innheimtan þar áhættulítil og borgaði sig. En alt öðru máli gegnir um umdæmi þar sem mörg kauptún eru auk í aðsetursstaðar sýslumanns, eins og er í stærri umdæmunum, Ísafjarðarsýslu, í Eyjafjarðarsýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu og Norður-Múlasýslu. Sennilega er tollheimtan viðsjálust í Eyjafjarðarsýslu; sérstaklega eykur Siglufjörður í erfiðleikana því að umsetningin þar er afarmikil, og hann er mjög erfiður viðfangs að því er snertir tollgæslu. Á þessum stöðum kæmist sýslumaður ekki langt ef hann kynni ekki meir en stafrofið sem hv. 1. þm. Rv. þuldi upp. En það hefir nægt honum fyrir 6 árum í Snæfellsnessýslu, því þar og þá var tollheimtan miklu auðveldari.

Út af orðum hv. þm. S.-Þing. (P. J.) vil eg taka það fram, að ekki er rétt að gera ráð fyrir að rannsókn lögreglustjóra lendi á umboðsmönnunum. Eg er sannfærður um að svo mun ekki reynast í framkvæmdinni. Reyndin mun verða sú, að umboðsmennirnir taka á móti því sem að þeim er rétt; þeir geta ekki annað gert. Í stórum umdæmum verður aðferðin sú, að skip sem flytur tollskyldar vörur skilar þeim skjölum sem tollinn snerta fyrir alt umdæmið á aðsetursstað sýslumanns. Þess vegna fá umboðsmenn ekki í hendur þá lista sem fyrst verður að byggja á, þá lista sem sýna hverjir fái sendar vörur. Ef skipið hefir fasta ferðaáætlun, og einkanlega ef símasamband er við aðsetursstaði umboðsmannanna, þá getur lögreglustjóri gert þeim aðvart undir eins og hann hefir fengið listana frá skipstjóra, hverjir eigi vörur með skipinu í hverju kaup túni og geta þá umboðsmennirnir gengið eftir factúrunum. En mjög oft verður þessu ekki við komið. Það kemur oft fyrir að skip koma bara á einn stað í umdæminu, senda skrá eftir manifesti í land og fara svo frá landi. Þá legst ábyrgðin á aðalinnheimtumanninn en ekki á umboðsmennina. Það er því skakt að umboðsmennirnir létti svo verulega miklu erfiði af lögreglustjórum og ábyrgð hans er sú sama. Eg álít því eins og eg hefi bent á fyr, að 2% borgun af núverandi tolli er betra en 3% af þessum tolli.

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði að ekki þyrfti annað en að „líta á reikningana“. Það er skakt. Fyrst er að fá upplýsingar um það, hvar eigi að leita reikningana uppi; svo er að smala þeim saman, ganga til hvers manns, því fæstir munu koma með þá ótilkvaddir. Síðan er að bera saman skrána og reikningana, því að margir kaupmenn fá fleiri factúrur en eina með sama skipi, og er því nauðsynlegt að tryggja sér að engri sé stolið undan. (Matthías Ólafsson: En vottorðin). Sá sem stelur undan horfir ekki í æru og samvizku.