14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

19. mál, verðtollur

Lárus H. Bjarnason:

Eg ætla að eins að svara hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) nokkrum orðum. Hann sagði að frumv. sitt hefði ekki fengið eins góðar undirtektir á fyrri þingum og nú og mundi það vera vegna þess, að hann hefði aldrei skýrt málið eins vel og nú. Þetta finst mér nú ekki vera neitt sérlega sannfærandi, því hér sannast að eins hið fornkveðna, að „hverjum þykir sinn fugl fagur“.

Hvað snertir breytingu frv. er það að segja, að 13 greinar eru óbreyttar af 15; aðalbreytingin er sú, að undirflokkunum er slept.

Annars stóð eg aðallega upp til að mótmæla því, að lítið eða ekkert væri byggjandi á verði því, er skráð væri í fylgibréfum með póstsendingum frá útlöndum. Póstfylgibréfinu fylgir sérstakt bréf. Eg hefi hér eitt bréf í höndum frá háttv. þingm. á þýzku. Það er fest við póstfylgibréfið og kallar sig Zollinhaltserklärung og á því stendur meðal annars stuðull bæði fyrir verð og þyngd. Til viðvörunar er prentað með feitu letri í athugasemd á fylgibréfinu: Die aus mangelhafter oder unrichtiger Abfassung der Zollinhaltserklärungen entstehenden Folgen fallen dem Absender zur Last, á íslenzku: „sendandi verður að taka þeim afleiðingum sem leiða af því, að tollskýrslan er röng eða henni áfátt í einhverju“. Verðið, sem í bréfið er sett er því ekkert handahófsverð, heldur miklu fremur nokkurs konar ábyggingarverð, en það verð samsvarar aftur á móti hjá flestum sannverði. Svona eru eigi að eins þýzkar póstsendingar heldur allra þjóða póstsendingar útbúnar, og sér hver maður að verðtilsögnin á bréfinu mundi í flestum ef ekki öllum tilfellum jafngilda kaupreikningi.

Hv. þingm. Ak. (G. G.) þarf ekki að svara mörgum orðum. Þó vil eg út af lýsingu þm. á erfiðleikum á innheimtu þessa gjalds og áhættu lögreglustjóra, leyfa mér að benda á, hvernig eg hefi hugsað mér að gjaldheimtunni mætti koma fyrir. Eg hefi hugsað mér, að tollheimtumenn hefðu eyðublöð undir vottorð, sem þeir afhentu til undirsrkiftar áður en þeir skoðuðu kaupreikninginn, bæru síðan vottorðin saman við kaupreikninginn og bættu loks við á vottorðin þeim athugasemdum, sem skoðun reikningsins kynni að. hafa gefið tilefni til. Þetta yrði hvorki erfitt fyrir tollheimtumenn, né áhættusamt.