14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

19. mál, verðtollur

Ráðherrann (H. H.):

Mér virðist það liggja í augum uppi, að verð það, sem tilgreint er í þessum svonefndu tollyfirlýsingum er að eins vátryggingarverð það, sem sendanda þóknast að fá endurgoldið af póststjórninni, ef sendingin týnist. Alveg á sama hátt og vér hér á landi getum sett á bögla það verð er oss sýnist. Vér verðum að eins að greiða burðargjald og tryggingargjald að því skapi. Það er því alveg óheimilt eftir frumv., að byggja á því verði gagnvart öðrum upplýsingum um, hvað sendingin í raun og veru hafi kostað í innkaupi. Hér getur vel verið að eins um svo nefnt „affections“-verð að ræða.

Það er alveg villandi sem háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) sagði, að farmgjaldsfrv. 1911 hefði verið eins og frv. um farmtoll er nú, þó að toga megi svo og teygja, að flokkarnir séu hér um bil jafn margir. Nú er flokkunin mjög einföld, einn aðal flokkur, sem flestallar vörur falla undir, og fáeinar undantekningar. En þá var kirfilega raðað niður fjölda af vörutegundum í hvern flokk og þeim ekki sem skyldustum sín í milli. Flokkarnir voru sjö. Í 1. flokki voru 17 tegundir, í 2. fl. voru 30 teg., í 4. fl. voru 27 teg., í 5. fl. 15 teg. og svo auk þessara aðalflokka voru margir undirflokkar. Það leiðir af sjálfu sér, að slíkt var miklu umsvifameira, erfiðara viðfangs og óviðfeldnara í alla staði, heldur en frv. er nú, eins og það liggur fyrir þingdeildinni.