14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

19. mál, verðtollur

Lárus H. Bjarnason:

Að eins fáein orð til svars hæstv. ráðherra, þó þess sé í rauninni engin þörf, því, eins og allir vita, þá hættir honum oft við að tala óhugsað þegar um kappsmál hans er að ræða, eins og líka sýnir sig, þar sem hann hefir ekki einu sinni séð fylgibréfið, sem við hv. þm. G.-K. (B. Kr.) höfum verið að karpa um. Á fylgibréfinu stendur ekki að eins þyngd vörunnar heldur einnig verð hennar og það er sannverð eins og hæstv. ráðherra og kannaðist óbeinlínis við, þar sem hann sagði að verðið væri sett á bréfið, til upplýsingar því sem póststjórnin ætti að greiða ef sendingin færist, með öðrum nokkurskonar vátryggingarverð, eins og allir vita fer það og sannverð hjá flestum saman.

Ekki hefi eg sagt að farmgjaldsfrumv. nú væri eins og það fyrra, heldur það, að af 15 greinum væru 13 eins; aðalflokkarnir væru 7, en undirflokkunum slept og þetta er laukrétt. Eg ætla að leyfa mér að telja flokkana upp:

1. flokkurinn, 1 kr. fl., nær til allrar vöru, sem ekki er sérstaklega nefnd. 2. fl., 25 aura fl., er kornvara, jarðepli m. fl. 3. fl., 10 aura fl., er steinolía m. fl. 4. fl. er kol. 5. fl. er salt. 6. fl. er trjáviður m. fl. 7. fl. er póstsendingar og 8. fl. mætti jafnvel telja þær vörur, sem undanþegnar eru öllu gjaldi.

Þó að hæstv. ráðherra áliti nú þessa flokkaskiftingu nægilega trygga, þá hugsa eg nú samt að hægt væri að stinga vörum úr krónu flokknum innan í vörur úr ódýrari flokkum, eða í tollfrjálsar vörur, ekki því að gleyma að vöruskrá getur vantað eða hún verið röng og hvar stendur landssjóður þá? (Björn Kristjánsson: Það mundi ekki borga sig). Nei, auðvitað ekki, það borgar sig ekki, rétt á litið, að brjóta lögin, en þeir sem hafa tilhneiginguna til þess, gera það nú samt, og reiðir sumum hverjum full vel af. Eg verð þess vegna að halda því fram, að tollsvik mundu verða auðveld þó að farmgjaldið kæmist á, og að verðtollurinn mundi ekki verða að mun óhægari til innheimtu. Eg skal játa, að farmgjaldið yrði hægt til innheimtu, ef vörurnar væru algerlega óflokkaðar, en þá yrði það um leið óheyrilega ranglátt. Verði farmgjaldsfrumv. þetta að lögum, hlýtur það að stranda á báðum skerjunum, mundi bæði verða ranglátt og erfitt til innheimtu. Annars liggur ekki þetta frv. fyrir, heldur verðtollsfrv.