22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

22. mál, veiði í Drangey

Flutnm. (Ólafur Briem):

Frv. þetta er fram komið að tilhlutun sýslunefndar Skagafjarðarsýslu.

Drangey liggur í miðjum firði eins og kunnugt er, og er óbygð. Var hún fyrrum eign Hólastóls, en seld um næst síðustu aldamót. Var hún síðan í eign einstakra mann til þess um 1880, er sýslunefndin í Skagafjarðarsýslu keypti hana fyrir sýsluna, og hefir hún síðan verið höfð til afnota fyrir almenning fyrir tiltölulega lítið eftirgjald. Um veiði þar hafa frá ómunatíð verið fastar venjur. Þar hefir jafnan verið eggjataka, fuglveiði á flekum og fiskveiði, og vertíðin að jafnaði staðið yfir 6 til 8 vikur að vorinu, frá því í maí þangað til seint í júní.

Eftir að sýslan var orðin eigandi eyjarinnar, voru samþyktar reglur um veiðiskap þar, en sá hængur var á, að þeim ákvæðum var ekki hægt fram að fylgja til fulls sakir þess, að lagaákvæði hefir vantað til þess að leggja sektir við þeim, og þótt slík brot hafi að undanförnu ekki verið mjög tíð, þá hafa þau þó heldur farið vaxandi í seinni tíð.

Frumv. kemur ekki í bága við nein gildandi lagaákvæði, miðar að eins að því, að tryggja sem mest almenn not að veiðinni. Hér væri því ekki í sjálfu sér þörf á nefnd, en vegna þess að á leiðinni eru fleiri samþyktalög er ef til vill rétt að kjósa nefnd í þetta mál og vísa hinum samskonar frumvörpum til sömu nefndar. Þess vegna leyfi eg mér að stinga upp á 5 manna nefnd.