21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

23. mál, stjórnarskrármálið

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg tók það fram í upphafi, að ekki væri ástæða til að halda langa ræðu um þetta mál. Það hefir verið sagt af hálfu minsta hlutans að aðalverk þingsins væri að leiða stjórnarskrármálið til lykta. Senni­lega meint með því að samþykkja frv. óbreytt. Háttv. þm. Dal. (B. J.) skýrði þetta þó nokkuð á annan veg, því að hann talaði um að binda enda á málið, þó líklega ekki um alla eilífð. Hér er blandað saman tilefni og tilgangi þess, sem skeður. Tilefnið til þess, að þessu þingi er stefnt saman, er auðvitað það, að samþykt var stjórnarskrárbreyting á síðasta þingi, en þar með er ekki sagt, að tilgangur þessa þings sé sá einn, að samþykkja frv. síðasta þings óbreytt. En auðvitað er sjálfsagt að það mál sé tekið til meðferðar. Það var vitnað til þess, að vilji þjóðarinnar væri eindreg­inn í þessu máli. En það er ekki rétt. Eftir því sem mér telst til, eru 25 kjör­dæmi á landinu. Frá 5 þeirra hefi eg ekki séð fundargerðir, nefnilega Vestur­Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu, Borg­arfjarðarsýslu, Ísafjarðarkaupstað og Norður-Þingeyjarsýslu. Úr hinum kjör­dæmunum er mér kunnugt um 47 þing­málafundi. Í 3 af þeim var samþykt að skora á Alþingi að fylgja fram frv. síðasta þings óbreyttu. Þau voru Gull­bringu- og Kjósar-sýslu, Dalasýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu. Í 3 kjördæmum voru skiftar skoðanir um það. Á sum­um fundum vildu menn fresta þessu máli eða breyta því. Það voru Austur-Skafta­fellssýsla og Barðarstrandarsýsla. Í 14 kjördæmum, var í flestum samþykt að fresta málinu, en í hinum að breyta frv. Samþykt hefir því verið á 34 fundum, að fresta eða breyta stjórnarskrárfrum­varpinu (24 að fresta 10 að breyta). Á 4 fundum hefir engin ályktun verið gerð. Og að eins 9 fundir hafa samþykt að skora á þingið að samþykkja frumv. óbreytt. Mikill meiri hluti þingmála­fundanna er því með því að breyta eða fresta frv. Það er því augljóst að vilji þjóðarinnar er ekki sá að samþykkja frumv. óbreytt. Af þessu má sjá í hve lausu lofti fullyrðingar háttv. þm. Dal. (B. J ) eru bygðar.

Mér hefir verið bent á, að rangfæra megi á einum stað orðfæri tillögunnar er eg bar upp, eða leggja í orðin aðra þýðingu en rétt er. Það eru orðin »er samkomulag fæst um«. Til þess að fyrirbyggja að þetta verði miskilið, hefi eg, með leyfi hæstv. forseta, skotið inn orðunum »inn á við og út á við«. — Það mætti máske með hæfilegri rang­færslu og útúrsnúningum leggja þá mein­ing í hið upphaflega orðalag, að vér vær­um tilbúnir til að ganga að hverjum þeim breytingum, er samkomulag fæst um við Dani, en það liggur ekki í orðum tillögunnar, enda taka innskots­orðin þar af allan vafa.

Eins og öllum er kunnugt leggjum við aðaláherzluna á það, að samkomulag náist fyrst og fremst innanlands, og því næst að samkomuleg náist innanlands um tillögur, sem líklegar séu til sam­komulags við Dani. Menn verða nefni­lega að hafa það hugfast í þessu máli, ef við hreyfum því aftur, að til þess að við getum haft nokkra von um að koma nokkru fram gagnvart okkar viðsemj­endum, verðum við allir, sem viljum málefnasamband — en ekki persónu­samband eða skilnað — að vera sam­huga og samtaka um tillögurnar og við vitum, að viðsemjendur okkar fást trauðlega til viðtals um þetta mál, með­an þing og þjóð er sundrað í flokka um málið.

Við, sem í raun og sannleika fylgjumst að um efni málsins, verðum þá fyrst og fremst að geta orðið sammála og samtaka. Og þegar við erum allir á einu máli um efnið í tillögum vorum, þá fyrst er vit í að fara að leita samkomulags um þær við Dani. Þetta er það, sem í orðum tillögunnar liggur og til þess að ekki sé hægt að rangfæra þetta, hefi eg skotið inn orðunum, eins og eg gat um. — Vitaskuld þýða hin upphaflegu orð það sama, en það er kominn slíkur orðheng­ilsháttur inn í þetta mál, að dæmi slíks þekki eg ekki, og tel eg það mjög illa farið.

Eg ætla ekki að fara út einstök at­riði stjórnarskrárfrumvarpsins. Það er tekið skýrt fram í nefndaráliti okkar fjögra, hverjar breytingar við álítum nauðsynlegar.

Þó vil eg að lokum benda á, að það er textagalli á frv., svo minkun væri að láta það frá sér fara, án þess að bæta úr honum. Það er í ákvæðunum um samkomudag alþingis.

Svo fjölyrði eg ekki frekar um þetta. Eg hefi gert grein fyrir aðstöðu minni, og hvernig litið er á málið alment í land­inu.