21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

23. mál, stjórnarskrármálið

Kristján Jónsson:

Að vísu er eg ekki framsögum. litla hlutans í nefnd­inni, en þó leyfi eg mér að mæla hér fyrir hönd okkar tveggja sem í honum eru.

Við höfum lagt það til, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Ástæðan til þess er sú, að eg ber kvíðboga fyrir því, að frv. verði ekki staðfest, þótt það nái samþykt á þessu þingi.

Án þess að leitast við að færa frek­ari sannanir í því efni, fullyrði eg það, að eg hefi gert alt, sem í mínu valdi hefir staðið, til þess að tryggja það að frv. næði konungsstaðfestingu, en þessa tryggingu hefir mér eigi tekist að fá. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er, hér sem annarstaðar. Og saga þessa máls er sú, að mér var ótví­ræðlega gefið það í skyn af þeim, sem um það máttu bezt vita, að frv. mundi eigi verða staðfest, eins og það fór frá síðasta þingi.

Orsökin til þessara vandkvæða er burt­felling ríkisráðsákvæðisins úr stjórnar­skránni. Og þar sem það hvorki er til­tækilegt að taka ríkisráðsákvæðið upp í frumvarpið aftur, né heldur að etja kappi við konunsvaldið um atriði, sem ekki er mikilvægara í mínum augum en þetta er, þá leggjum við það til, að frv. sé ekki afgreitt nú frá þinginu sem lög.

Jafnframt vil eg taka það fram, að eg var óánægður með ýmisleg ákvæði í frv. á síðasta þingi, sérstaklega með hina gegndarlausu útfærslu kosningar réttarins, og svo einnig með skipun efri deildar.

Að fjölga kjósendum í landinu um meira en helming, alt í einu, er mjög at­hugavert, þó margir álíti það hið mesta hnoss. Það er meira en lagabreyting; það er bylting «revolution« og alls eigi hægt að sjá fyrir, hverjar afleiðingar hennar mundu verða.

Ennfremur ber að gæta þess, að hvern­ig sem annars er litið á sambandsmáls­tilraunir þær, sem þingið nú hefir með höndum, þá er rétt að bíða eftir úrslit­unum. Að þessu leyti er eg fyllilega samdóma háttv. l. þm. Ryk. (L. H. B.), þó eg sé engan veginn ánægður með afstöðu og horfur sambandsmálsins nú frekar en áður.

Þegar búið er enn að reyna fyrir sér í sambandsmálinu, þá er fyrst ástæða til að fara að breyta stjórnarskránni á ný, hvort sem úrslitin verða ill eða góð í sambandsmálinu.

Dagskrá mín og hins háttv. þm. sem með mér er um hana, er að því leyti frábrugðin dagskrá meiri hlutans, að í henni er slept tilvitnun í uppkastið frá 1908. Þessa tilvitnun get eg ekki samþ. því að enn er eg jafnt sem áður alveg mótfallinn uppkastinu frá 1908.

Út af ræðu háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hefi eg aðeins ástæðu til að taka það fram, að útnefning hinna kgk. þm. var als ekki gerð með tilliti til sam­bandsmálsins. Eg veit með vissu, að það mál verður ekki til lykta leytt, fyr en það hefir verið borið undir atkvæði þjóðarinnar, og þá skiftir litlu um þessa 5 kgk. þm., hvort þeir eru með eða móti uppkastinu frá 1908.

Annars þykir mér ekki ástæða til að lengja umræður um þetta frekar.