21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

23. mál, stjórnarskrármálið

Framsögum. minsta hlutans (Skúli Thoroddsen):

Háttv. þm. Ak. (G. G.) var í ræðu sinni að tala um vilja þjóðarinnar í þessu máli og leit svo á, að það væri ekki vilji þjóðar­innar að stjórnarskrármálið yrði ekki samþykt á þessu þingi. En gagnvart þessu vil eg taka það fram, að maður getur ekkert bygt á þingmálafundar­gerðum í þessu efni. Þeir þingmála­fundir, sem haldnir hafa verið á und­an þessu þingi eru gersamlega ólíkir fyrri þingmálafundum. Það gerir deyfð­in sem hefir hertekið hugi manna, þeg­ar fregnirnar um bræðinginn hafa bor­ist út um landið, svo að menn sitja heima og sinna ekki fundahöldum. Það hafa að vísu verið samþ. margar shlj. till. á fámennum þingmálafundum, auðsjáan­lega til þóknanlegrar eftirbreytni eftir miðstjórn heimastjórnarflokksins í Rvk. En yfirleitt er deyfðin að því er fund­arsókn snertir mjög mikil um land alt.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L H. B.) fór fögrum orðum um það, að hann væri hlyntur því að kvenfólk fengi atkvæðis­rétt, en hann snýst á móti því máli ef hann greiðir atkvæði með þessari rök­studdu dagskrá, sem hér er fram komin, eða verður þess á annan hátt valdandi með atkvæði sínu, að stjórnarskrárfrv. verði ekki samþykt. En ræður sumra manna, sem sjást í þingtíðindunum, eru þvert á móti atkv.gr. þeirra hér í deild­inni. Og eg finn ástæðu til að taka það fram gagnvart háttv. kjósendum, að það er oft og tíðum ekki mikið byggjandi á því, sem í þingtíðindunum stendur, því að þar geta sést ræður, sem aðeins eru haldnar til að blekkja kjósendur.

Háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) sagði, að hann hefði ekki talið ráðlegt að leggja út í baráttu gagnvart konungsvaldinu. Það er ekkert hægt að fullyrða um það, hvort nokkurrar baráttu hefði þurft. Það liggur ekki fyrir neitt fullnaðar svar í því efni, og maður veit ekki að hverri niðurstöðu konungur hefði komist ef frv. hefði verið samþykt óbreytt. Það má telja harla ólíklegt, að konungur hefði synjað staðfestingar nú, rétt áður en hann ætlar að heimsækja íslenzku þjóð­ina. Það mælir þvert á móti ýmislegt með því, að hann hefði staðfest lögin. Það veltur ekki alt á því hvernig mál­ið er borið fram fyrir konung. Eða hafa sjálfstæðiskröfur Íslendinga að því er sérmál þeirra snertir verið skýrðar nokkuð fyrir Dönum?

Þá tók sami háttv. þm það fram, að sér virtist ekki rétt, að kjósendum sé fjölgað um helming í einni svipan. Háttv. þm. Dal. (B. J.) er búinn að benda á siðferðisréttinn, sem kvenfólk hefir til kosningarréttar eins og karl­menn. Þetta vita allir. Þegar talað er um siðferðisrétt, þá er eins og menn haldi alment að það sé orð sem hafi enga þýðingu. En það er nú eitthvað annað en svo sé. Hið siðferðislega ranga verður ekki rétt, þó að lög séu sett um um það. (Lárus H. Bjarnason: Það er taktiskt spursmál). Ef sett eru lög um lygi, verður þá lygin siðferðislegur rétt­ur? Frá því sjónarmiði er það hættu­legt og slæmt að kvennfólki og öðrum sé varnað að fá rétt sinn.

Svo hefi eg ekki öðru að svara en því, að mig furðaði stórlega á að heyra ræðu háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) þegar hann tók það fram gagnvart háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) að það væri skoðun sín, að uppkastið ætti ekki að samþykkja. Þetta segir hann eftir að hafa trygt uppkastsmönnum meiri hluta í þinginu með skipun konungkjörinna þingmanna.

En að háttv. fyrverandi ráðherra (Kr. J.) geti borið fyrir sig að hann hafi út­nefnt konungkjörnu þingmenniaa án til­lits til uppkastsins, það nær ekki nokk­urri átt Og að lítið muni um 5 kon­ungkjörna þingmenn af því að málið eigi að bera undir þjóðina, sér hver maður að er fjarstæða, því að vitanlega þarf ekki nema eitt atkvæði til að ríða baggamuninn.

Yfir höfuð sýnist mér þetta eins og annað, sem nú er að koma fram, benda á það að sumum þeim mönnum, sem töldust til Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið mikil alvara. Það sýnir framkoma háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) og bræðingur­inn, sem nú er kominn á dagskrá. Eg minnist þess, að þegar eg lá sjúkur á St. Jósefsspítala í Kaupmannahöfn, barst mér í hendur Ísafold með ræðum þeirra þm. Barð. (B. J.) og þm. Borgf. (Kr. J.) er þeir héldu á fundinum í barnaskóla­portinu, þegar frézt hafði hingað heim um uppkastið. Eg held að eg muni það rétt að þeir byrjuðu báðir með þakk­læti og skjalli til millilandanefndarinn­ar, meiri hlutans ekki síður en hins minni. Það var auðséð að mennirnir voru á báðum áttum og vissu ekki hvernig þeir áttu að snúa sér. Svo hófst baráttan. Þá kallaði Ísafold meiri hluta mennina landráðamenn. En nú, síðan bræðingurinn kom til sögunnar, eru þetta einu mennirnir, sem treyst­andi er til að leiða sambandsmálið til farsællegra lykta. Þetta verður ansi skemtilegur kapítuli í sögu Íslands fyr­ir seinni tíma menn.