21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

23. mál, stjórnarskrármálið

Einar Jónsson:

Eg hefði satt að segja gjarnan viljað losa deildina við meiri umræður um þetta mál heldur en komnar eru. En eg er ekki skyldugur að þegja fremur en aðrir.

Mig furðar sannarlega á þessum löngu umr. dag eftir dag um mál, sem legið hafa fyrir þinginu íalt sumar; þingið ætti heldur að spara sér umræðurnar sem mest og afgreiða málin með ein­faldri atkvæðagreiðslu. Að minsta kosti er algerlega ónauðsynlegt að vera að eyða tíma í langar umræður um þessa till. sem hér liggur fyrir. Mig furðar á æfðum þm., eins og hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að hann skuli segja að það sé þýðingarlaust að vera að tala um stjórn­arskrármálið af því hann viti fyrirfram, hvernig afdrif það fái. Það er kveikt ljós yfir okkur fram á miðja nótt yfir þessum nauðsynjalausu umr., rétt eins og þingmenn séu hér saman komnir til að leika sér eins og Olympíuleikafar­arnir, nema hvað þessir leikar eru ekki eins heiðarlegir, að eyða dýrum tíma þingsins í algerlega ónauðsynlegar um­ræður.

Fyrst hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) segir í upphafi ræðu sinnar, að það þýði ekk­ert að tala um þetta mál, hvers vegna heldur hann þá langa ræðu í málinu sjálfur? Eg býst við að hann ætti að geta gert sig ánægðan með að bíða með stjórnarskrármálið, þangað til séð verð­ur hvað um sambandsmálið verður.

Þótt hv. þm. Dal. (B. J.) glotti fram­an í mig, ímynda eg mér að hann sjái að þetta er rétt. Hann er nú altaf svo kátur og skemtilegur.

Eg ætla nú ekki að fara út í einstök atriði stjórnarskrármálsins, eg sé ekki neina ástæðu til að fara að lengja um­ræður um það. Það er vitanlega rétt, sem menn segja, að þetta aukaþing er aðallega saman komið vegna þess máls. En það er ekki alt sannleikur sem haft er eftir þingmönnum af þingmálafund­um. Eg hefi t. d. sagt, að eg vildi að stjórnarskrármálið gengi fram á þessu þingi. En þegar sambandsmálið er nú á döfinni, þá er eg svo hygginn að sjá, að það á að ganga fyrst og svo stjórn­arskrárrnálið á eftir.

Til þess að þreyta deildina ekki leng­ur, skal eg láta tali mínu lokið í þeirri von, að ekki verði haldið áfram umr. í alla nótt. Annars gæti eg tekið það fyrir, þótt eg tali ekki vel, að tala svo lengi, að allir þingmenn væru farnir út áður en eg hætti, en eg vil helst forða landssjóði frá þess háttar kostnaði.