23.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

24. mál, stofnun Landsbanka

Flutn.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eins og mönnum er kunnugt er það tekið fram í lögum um stofnun Landsbanka 18. Sept. 1885, að bankinn eigi að setja á stofn útbú á Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Landsbankinn hefir nú sett á stofn útbú á Akureyri og Ísafirði, en ekki á Seyðisfirði. Þar á móti hefir Íslandsbanki þar útbú. Þetta frv. fer fram á, að þegar Landsbankinn sér sér fært að stofna útbú á Austfjörðum, verði það gert einhversstaðar í Suður-Múlasýslu, en ekki á Seyðisfirði. Yrði það þá annaðhvort á Eskifirði eða Reyðarfirði. Orsökin til þess, að þetta frv. er komið fram, er sú, að eins og nú hagar til með útbúið á, Seyðisfirði, hafa Sunnmýlingar svo sem engin not af því. Það er gamall rígur á milli sýslnanna, sérílagi kaupstaðanna, sem veldur því; og sá rígur er svo gamall sem eg man langt eftir mér. Seyðfirðingar halda í það sem þeir hafa og bola hinum frá. Mér er jafnvel kunnugt um, að efnaðir Sunnmýlingar hafa sótt um lán í útbúinu á Seyðisfirði, og verið synjað um það, en fengið það aftur á móti viðstöðulaust í útbúinu á Akureyri, er þeir leituðu þangað. Eins veit eg til þess, að er Sunnmýlingar hafa sótt um lán til mótorbátakaupa, hafa þeir fengið vilyrði, ef þeir vildu skuldbinda sig til að kaupa bátana hjá kaupmanni á Seyðisfirði. Enginn óhagur ætti það að vera fyrir Landsbankann að setja á stofn útbú í Suður-Múlasýslu, þegar honum er það fært, því að þar er í raun og veru miklu meiri markaður fyrir banka nú, en á Seyðisfirði.

Þetta frv. er borið fram eftir einróma áskorun sýslubúa, ekki eins árs áskorun, heldur margra ára.

Vona eg að hin háttv. deild leyfi þessu frv. að ganga til 2. umr.