23.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

24. mál, stofnun Landsbanka

Valtýr Guðmundsson:

Eg get ósköp vel skilið, að einróma áskoranir hafi komið frá kjósendanum í Suður-Múlasýslu um að fá útbú. Því hvert hérað vill hafa útbú hjá sér. Það sannar því ekkert. Mér finst það harla undarlegt, ef nú á að fara að taka þessa von frá Seyðfirðingum um útbúið, sem þeim var gefin með bankalögunum, þar sem engin ástæða er til þess. Seyðisfjörður er stærsti bærinn á Austfjörðum og liggur bezt við öllum samgöngum. Þess vegna er hægast fyrir menn að ná til útbúsins þar. Fullnægi útbúð sem nú er á Seyðisfirði ekki þörfum Sunnmýlinga, er fjárskorti um að kenna, en alls ekki því að þeir eru Sunnmýlingar. Norðmýlingar fara þangað ónýtisferðir engu síður.

Eg tel því hollara, ekki einungis fyrir Seyðisfjörð heldur og Austfirði yfirleitt, að útbúið verði sett á stofn þar sem því hefir hingað til verið ætlaður staður. Þá gæti og samkepni átt sér stað milli bankanna, og það er það sem þarf að vera.

Eg vil þess vegna mælast til þess við hina háttv. deild, að hún láti sitja við þau lög sem hingað til hafa gilt, og að málið verði hvorki sett í nefnd né látið ganga lengra.