27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

24. mál, stofnun Landsbanka

Flutn.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg stend að eins upp til þess að svara hv. 1. þm. N-Múl. (Jóh. Jóh.). Hann vildi rengja skýrslu mína um mótorbátakaup eystra og skoraði á mig að tilgreina heimildarmann minn. Eg get gert honum það til þægðar; það er sannorður maður, sem hv. þm. mun kannast við, Sigfús Daníelsson fyr verzlunarstjóri á Eskifirði, nú verzlunarstjóri Ásgeirssons verzlunar á Ísafirði. Um útbússtjórann á Seyðisfirði hefir mér aldrei til hugar komið að segja neitt misjafnt um, því að eg þekki hann að góðu einu.

Rígur hefir frá fornu verið milli Seyðisfjarðar og Suður-Múlasýslu-kauptúnanna og kennir hans enn í ræðu hv. þm.

Hv. þm. sagði, að mér kæmi til skortur á kunnugleika á Suður Múlasýslu; eg skal ekki við hann þræta um það, hvor okkar sé kunnugri þar, þótt eg sé þar bæði fæddur og uppalinn, en líklega ætti þó Sunnmýlingum að vera sjálfum kunnugast um hagi sína og vita bezt, hvar skórinn kreppir. En þar hafa í hverjum einasta hreppi á árlegum fundum alt síðan 1908 verið samþyktar einróma ályktanir um málið. Eg tók svo milt til orða, að numið land væri í Seyðisfirði, en ónumið í Suður-Múlasýslu, til að vekja ekki kapp.

Hv. þingm. var með sögusagnir um Fagradalsbrautina. Eg býst við, að þær séu viðlíka ábyggilegar og allar aðrar sögusagnir annara Seyðfirðinga um þetta, alla tíð frá því að fyrst var talað um að leggja þennan veg; en þær hafa, sem betur fer, reynst árangurslausar. Reynslan hefir þegar skorið úr því, hve mikið hefir orðið úr spádómum þeirra. Og enn framar munu ferðirnar aukast um Fagradal þegar sláturhús er komið á í Reyðarfirði, sem væntanlegt er.

Í annan stað er þess að geta, að ekki liggur Suður-Múlasýsla eingöngu í Fljótsdalshéraði; hún nær einnig suður um alla firði alla leið suður að Lónsheiði.