27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

24. mál, stofnun Landsbanka

Lárus H. Bjarnason:

Eg er meðmæltur frv. á þskj. 25, sérstaklega vegna þess, að Seyðisfjörður hefir þegar útbú en Suður-Múlasýsla ekki, enda mundu ekki einungis Sunnmýlingar hafa gagn af því, heldur og Austur Skaftfellingar hafa meira gagn af útbúi þar en á Seyðisfirði.

Eg er sömuleiðis meðmæltur till. á þskj. 68, um heimild til þess að stofna útbú eða afgreiðslustofu fyrir Landsbankann í Khöfn. Eg fæ ekki betur séð en að töluvert gagn gæti leitt af slíkri stofu. Þar með mundi greiðast fyrir viðskiftum Landsbankans við útlönd, t. d. með sölu verðbréfa, afgreiðslu arðmiða o. fl.

Eg trúi því ekki, að hæstv. ráðh. (H.) leggist á móti till., þegar hann hugsar sig um. Eg man það, að þegar um var að ræða á þingi fyr meir að veita Íslandsbanka heimild til að koma á fót svipaðri stofnun, þá var hæstv. ráðh. hvatamaður þess. (Ráðherra: Nei!) Jú, eg man það, en eg hefi ekki þingtíðindin við hendina til þess að sanna mál mitt. Till. miðar til góðs fyrir Landsbankann, en ef til vill til miður góðs fyrir aðrar stofnanir. Víst er það, að Landsbankanum getur ekki orðið till. til ils. (Ráðherra: Kostnaður). Ef kostnaðurinn yrði meiri en góðu hófi gegnir, mætti kippa að sér hendinni.

Annað mál er það, hvort bankastjórnin skuli vera einráð um þetta, eða stjórnarráðið hafa hönd í bagga með. Líklega fult eins heppilegt að stjórnarráð og bankastjórn ráði því í sameiningu, enda þarf samtök beggja til stofnunar innlendum útbúum.

Eg er, sem sagt, meðmæltur báðum tillögunum og vona, að þær hafi framgang.