27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

24. mál, stofnun Landsbanka

Bjarni Jónsson:

Eg tek í sama streng og háttv. 2. þm. Rv. (J. J.), að heppilegra er að setja inn Austfirði í stað Suður-Múlasýslu. En eins og eg hefi áður fram tekið við 1. umr., er lagabreyting ónauðsynleg til þess, að bankastjórn megi setja útibúið þar sem henni sýnist. Hún hefir heimild til þess. En nú er viðbótartill. komin fram við frv. svo löguð, að eg mun greiða frv. atkv., í því trausti, að til 3. umr. verði sett inn á Austfjörðum í stað í Suður-Múlasýslu.

Um viðbótartill. tek eg undir með hv.þm. Rvk. (L. H. B), að hæstv. ráðh. hefir auðsýnilega ekki veitt því athygli að hér er að eins um afgreiðslustofu að ræða, til þess ætlaða meðal annars að selja verðbréf, en þau er lítt kleift að selja erlendis vegna ókunnugleika útlendra manna á oss. Þar í móti ef afgreiðslustofa slík væri sett upp t. d. í Lundúnum eða annarsstaðar, þar sem fjármagn er, þá mundu þau seljast, með því að maður væri jafnan við hendina, til að koma þeim út. Það dugir ekki að ætla þann starfa mönnum, sem eru á snöggri ferð; um það get eg borið. Eftir fyrirmælum Landsbankastjórnarinnar hafði eg verðbréf Landsbankans á boðstólum um tíma í vetur og hafði góða von um sölu á þeim. En þá fór að kvisast um rannsókn og málaferli út af bankanum, og gengu þá kaupin aftur. Mér er sagt, að nú séu verðbréf Landsbankans seld fyrir 93—94 af hundraði. Eg er viss um, að ef slík föst stofnum væri sett á laggirnar, mundu fást 96—98 af 100 fyrir verðbréfin á þeim stöðum, þar sem fé er fyrir hendi. Eg á ekki við Kaupmannahöfn; þar er góður umboðsmaður; afgreiðslustofan þyrfti að vera annarsstaðar en í Danmörku. Eg tel víst, að það borgi sig fyrir bankann að setja upp þessa afgreiðslustofu nú þegar, en ilt að bíða næsta þings og óþarft með öllu.

Eg skil og ekki, hví landstjórnin treystir ekki bankastjórninni til að setja upp slíka stofu. Annaðhvort er bankastjórnin fær um að standa fyrir bankanum eða hún er ófær um það, og ætti þá að hypja sig.

Hitt, sem hæstv. ráðh. (H. H.) gat um að það heyrði undir stjórnarráðið að úrskurða um þetta, þá er þar um að segja, að hann finnur ef til vill „hitann í sjálfum sér og sjálfs sín kraft til að standa mót“. En það er ekki víst, að jafnan sé banksstjóri ráðherra, þótt stundum sé svo, og er þá tryggara að bankastjórnin ráði.