27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

24. mál, stofnun Landsbanka

Ráðherrann (H. H.):

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) misminnir, að eg hafi nýlega verið hvatamaður að því, að Íslandsbanki fengi það sama sem nú er farið fram á í þgskj. 68 til handa Landsbankanum. Íslandsbanki hefir frá upphafi haft þessa heimild, eða nú í 9 ár og vísast um það til 3. gr. í reglugerð bankans 25. nóv.br. 1903, sem hljóðar þannig:

„Hann (?: bankinn) skal hafa útbú í hinum stærri kauptúnum Íslands, einkum á Seyðisfirði, Akureyri og Ísafirði. Eftir ályktun fulltrúaráðsins, er samþykt sé með 5 atkvæðum að minsta kosti, má stofna útbú annarstaðar á Íslandi svo og í Færeyjum, verði hægt að fá því framgengt. í Kaupmannahöfn má bankinn hafa erindrekastofu, en eigi má hún hafa sjálfstæð bankastörf á hendi.“

Þessi heimild Íslandsbanka um að stofna útbú utan Íslands eða erindrekastofu í Kaupmannahöfn, sem er alveg sitt hvað, hefir alt af verið látin ónotuð.

Það hefir þótt ótiltækilegt, með því að engi arðs von mundi að því verða að nota heimildina að þessu leyti, og hefir Íslandsbanki þó mjög miklu meiri viðskifti við útlönd en Landsbankinn. En fyrst ekki á að nota þessa heimild nú þegar, hver knýandi nauðsyn er þá til þess að koma henni í gegn nú, þrátt fyrir það að að fæstir hér í deildinni munu hafa haft tækifæri til að hugsa málið?

Háttv. þm. Dal. (B. J.) þótti heppilegt og og rétt, að stjórnarráðið hefði hér um ekkert að segja. En það að stjórnarráðið hafi úrskurðarvald um slíkt mál, er ekki að eins í fullu samræmi við gildandi lög Landsbankans, eins og eg gat um, heldur og í samræmi við tilsvarandi ákvæði í reglugerð Íslandsbanka; þar kemur bankaráð í stað stjórnarráðs. Athugasemd mína um þetta efni þarf ekki að skoða sem neina vantraustsyfirlýsing til stjórnar Landsbankans, en þar sem hér er um að ræða landsins eign, þykir mér ekki til mikils mælst þótt stjórnarráðið fái að minsta kosti að hafa hönd í bagga með þeim starfsmönnum, sem það sjálft skipar til þess að hafa á hendi framkvæmdastjórn Landsbankans, á slíkum efnum, sem snerta stjórn og framkomu bankans út á við.