27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

30. mál, mótak

Framsögum. (Ólafur Briem):

Það er alment viðurkent að samþyktarlöggjöf er haganlegt fyrirkomulag þegar um er að ræða mál, sem snerta að eins einstök héruð, eða þarf að sníða sérstaklega fyrir hvert hérað mismunandi eftir staðhátttum. Enda hefir þessi leið gefist vel hingað til. Einn kostur á þessari aðferð er sá, að auðvelt er að breyta samþyktum þegar reynslan sýnir að þess þurfi við, eins og oft á sér stað, þegar um nýja lagasetning er að ræða. Þannig komst nefndin að þeirri niðurstöðu að það mundi hentugt fyrirkomulag að heimila sýslunefndum að gera samþyktir um mótak, til að koma í veg fyrir landsspjöll af mótakinu, óhagkvæma meðferð mótaks og hættu af mógröfum. Að öðru leyti er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um frv. Eg skal aðeins minnast lítið eitt á br.till. þær er við höfum komið með. Sumar þeirra eru að eins orðabreytingar, t. d. 1. br.till., er fer fram á, að fyrir orðið „ódrjúga“ komi: „óhagkvæma“. 2. br.till. við 2. gr. fer aftur fram á efnisbreyting. Í frv. er gert ráð fyrir að þeir einir hafi atkvæðisrétt um samþyktir er kosningarrétt hafa til alþingis, en nefndinni fanst réttara að miða atkvæðisrétt um samþyktir við atkvæðisrétt í sveitamálum. Aðalmunurinn sem felst í br.till. er að konur hafi atkvæðisrétt jafnt og karlmenn. Á þgskj. 84 er viðaukatill. við br.till. okkar um að allir þeir er mótak eiga eða eru landsetar á mótaksjörð skuli hafa atkvæðisrétt um samþ. þó þeir hafi ekki atkvæðisrétt í sveitamálum fyrir æsku sakir. Nefndin felst á þessa till., því það er ekki rétt að slíkir menn séu útilokaðir þó þeir séu ekki orðnir 25 ára að aldri, en það aldurstakmark er skilyrði fyrir atkvæðisrétt í sveitamálum. Þá leggur nefndin til að síðasta málsgrein 2. gr. falli burt; henni þykir ákvæðið óþarft. Þá vill nefndin fella burt orðin „og löggildingar“ í 2. málsgr. 3. gr. Þetta orð er haft í öllum samþyktalögum, en nefndin áleit það óþarft, þar sem það er bara endurtekning, það nægir að segja að stjórnarráðið skuli staðfesta samþyktina enda er það einmitt sú staðfesting, sem veitir þeim lagagildi. 5. br.till. við 4. gr. er að eins orðabreyting; þó er „réttindi“ ef til vill víðtækara orð en „réttur“, og þykir í þessu sambandi betur viðeigandi.