20.08.1912
Efri deild: 29. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jósef Björnsson:

Eins og háttv. frsm. tók fram, er flokkun símalínanna bygð á tveim meginatriðum. Í fyrsta lagi því, að þær línur, sem í fyrsta flokk eru settar, sjeu þær, sem hafi mesta almenna þýðingu, eins og t. d. línan frá Seyðisfirði og til aðalkaupstaðanna allra. Á þeim stöðum verða vitanlega notin mest. Annað meginatriðið, sem háttv. frsm. tók fram, var það, hversu hinar einstöku línur borguðu reksturskostnaðinn. Í 2. gr. frv. eru upptaldar aðallínurnar; og eru þar ýmsar línur, sem enn eru ekki lagðar, og verður því ekki sagt, nema með áætlunum, hver not þeirra kunna að verða, og hversu vel þær koma til að borga sig.

Það er eðlilegt, að menn spyrja, hvort flokkunin sé rjettlát, — ef tekið er tillit þeirra tveggja meginatriða, sem hún er bygð á. Nefndin hefur lagt til, að bætt sje inn í 2. gr. símanum til Vestmannaeyja, sem nú er samþykkt orðið að landssjóður kaupi að því leyti, sem hann var einkasími.

Jeg hef nú leyft mjer að leggja það til, að upp í 1. flokk verði einnig tekin línan frá Sauðárkróki til Siglufjarðar; og með því virðist mjer öll sanngirni mæla, en ekkert á móti.

Háttv. framsm. gat þess, að tekjur af Vestmannaeyjasímanum væru nú 16 þús. krónur, og 12 þúsund af Siglufjarðarsímanum. En þetta er ekki rjett, að því leyti að tekjurnar af Siglufjarðarlínunni hafa verið allmikið hærri. Af stöðinni á Siglufirði að eins voru tekjurnar árið 1911 kr. 12.720,10, eða nokkru hærri en sú upphæð, sem framsm. nefndi. En á línunum Sauðárkrókur — Siglufjörður eru auk þess stöðvarnar; Haganesvík, Fell, Hofsós, Kolkuós og Vatnsleysa, og af öllum þessum stöðvum eru talsverðar tekjur, 1911 voru þær: Vatnsleysa 74,75 kr., Kolkuós 131,65 kr., Hofsós 673,90 kr., Felli 66,75 kr., Haganesvík 233,10 kr., og þegar við þetta bætast tekjurnar á Siglufirði, þá eru allar árstekjur þessara línu nær því 14 þúsund krónur.

Til að byggja þessa línu hefur landssjóður lagt fram 25.264,75 kr., svo að 14 þús. kr. eru góðir vextir af þeirri upphæð, og jeg hygg, að enginn annar partur símanna hjer á landi borgi sig eins vel tiltölulega, nema þá kannske bæjarsíminn hjerna í höfuðstaðnum. Og ekki er til neins, að vitna til þess, að Siglufjarðarlínan sje aukalína. Því jeg er samdóma hinum háttv. 1. þm. Húnvetninga um það að aðallínan beri ekki upp aukalínurnar, heldur muni með eins miklum rjetti mega segja, að aukalínurnar beri uppi aðallínurnar, eins og aukapóstar bera uppi aðalpósta. En hjer á við hið sama um símana og um líkamsheildina. Hinir einstöku hlutar símanna standa í svo nánu sambandi hver við annan, að ekki verður auðvelt að gera fulla grein á milli þess, hvaða gagn hver hlutur gerir heildinni eða heildin einstökum hlutum, en það er jafnvíst að þetta er víxlverkandi, eins og að einstöku líffæri líkama vors haldast fullfær fyrir verkanir heildarinnar, og að likamsheildin verður að njóta hæfileika einstakra líffæra til að geta notið sín.

En sje nú bætt við kostnað þann, er landssjóður hefur lagt til Siglufjarðarsímans, þeim 10 þús. kr., sem viðkomandi hjeruð lögðu fram, þá er allur kostnaðurinn við þá línu 35.264.75 kr. Nú er Vestmannaeyjasíminn keyptur fyrir 45.150 kr. eða. fyllilega 1/5 hærra verð en nemur öllum kostnaði Siglufjarðarsímans, og er því auðsætt, að 14 þús. kr. tekjur eru betri af Siglufjarðarlínunni, þótt allur kostnaður sje reiknaður (35 þús. kr.) en 16 þús. kr. af Vestmannaeyjalínunni (45 þús. kr.).

Og þegar maður nú gætir þess, að Vestmannaeyingar hafa ekkert lagt til símans, sem ekki er borgað að fullu, þar sem nú landssjóður hefur keypt hann við fullu kostnaðarverði, þá verður ekki vel sjeð, að þeir öðrum fremur eigi kröfu til að sleppa við starfsrækslukostnað á aðalstöðinni í Vestmannaeyjum.

Það verður einmitt í þessu efni að takast til greina og teljast Siglufjarðarsímanum til yfirburða, að sýslufjelögin nyrðra hafa lagt fram 10.000 krónur til línunnar. Það fje hefur landssjóður haft vaxtalaust frá því síminn var lagður, þó það yrði endurborgað einhverntíma. Þetta er ekki lítill vinningur landssjóði, ef langt liði þar til endurgreiðsla færi fram. Þetta fje er og ekki afturkræft, og nú er ekki verið að fara fram á, að svo sje, þótt ósennilegt sje, að það yrði ekki endurborgað síðar; en þá hljóta allir að sjá, hvílíkt órjettlæti og ósamræmi kemur fram í þessu gagnvart íbúum hinna einstöku hjeraða, ef Vestmannaeyjasíminn verður 1. flokks lína, en Siglufjarðarsíminn ekki.

Jeg verð því að halda því fast fram, að öll sanngirni mæli með því, að taka þessa línu upp í 1. flokk, — en þar með er ekki sagt, að jeg sje beint að mæla á móti Vestmannaeyjalínunni; hún hefur líka sinn rjett, þótt jeg líti svo á, sem sá rjettur sje ekki eins ríkur og rjettur Siglufjarðarsímans.

Háttv. framsm. talaði um, að tekjur Siglufjarðarlínunnar, væru aðallega á sumrin; látum svo vera, mjer fyrir mitt leyti finst það enginn galli. Þetta gerir, að starfið við línuna er stundum mikið en stundum lítið, og er því ekki ólíklegt, að komast mætti af með ódýra starfsrækslu að vetrinum. Nú kosta sveitirnar því nær alla starfsrækslu á línunni, en verða þó að búa við þann annmarka, að línan er notuð sem ritsímalína yfir sumarið, en það takmarkar afnotin af henni sem talsíma.

Það hefur að vísu orðið stundum á sumrin, að taka mann til aðstoðar á stöðinni, þegar allra mest hefur verið að gera, en það hefur sannarlega borgað sig vel. Síðastliðið ár var allur sá reksturskostnaður, sem landssjóður lagði fram við Siglufjarðarlínuna kr. 316,66 aurar; og sjá allir, að það er ekki mikið í samanburði við tekjurnar. Þá vil jeg minnast á br.till. á þingskj. 329, sem er orðabreyting, að í stað orðsins „ætíð“ komi: „fyrst um sinn“.

Mig furðar á því, ef menn vilja halda því fram, að hjeruðin skuli ætíð skyldug til þess að leggja fram svo og svo mikið fje til að leggja símana, en landssjóður skuli þó hirða allar tekjurnar. Hið eina eðlilega væri það, að landssjóður legði fram allan kostnaðinn, en hjeruðin ekkert. Þó hef jeg og meðfylgjandi minn ekki viljað fara fram á þetta að svo stöddu. Það sem með því mælir, að fyrst um sinn sje haldið reglunni, að heimta nokkurt tillag frá hjeruðunum, er, að það verður til þess að takmarka nokkuð óskir um að fá síma sem fyrst bygða á þeim og þeim stað. Ef kröfunni um framlag er haldið, verða óskirnar færri og koma helzt þaðan, sem þörfin er mest og fjölmennast er. En það ætti að vera föst regla, að þær línurnar kæmust fyrst upp, sem að mestum notum geta komið og gefa mestan arð.

Þá kem jeg að síðari br.till. á þingskj. 329. Með henni er farið fram á, að í stað þess sem frumv. gerir ráð fyrir, að „jafnan“ sje skilyrði fyrir að stöðvar komist á í sveitum, að starfrækslan sje kostuð af sveitinni, komi: að þetta verði að eins „fyrst um sinn“ skilyrði. Hið eina eðlilega væri, að allar stöðvar væru kostaðar af fje símans, af því landssjóður fær tekjurnar allar. Þetta væri í samræmi við stærri og smærri póstafgreiðslur. Kostnaðurinn þyrfti heldur ekki að vera mjög mikill.

Jeg hef litið yfir skýrslur landssímans 1911, og af henni má sjá, að hjer eru 57 stöðvar, sem fá ekkert fje greitt til starfsrækslu. Væri nú starfsrækslan á þessum stöðum borguð að nokkru leyti að eins, sem jeg tel ekki alveg fráleitt, þá má nærri því telja hjer um smáræði eitt að tefla. Á eftirlitsstöðvum til sveita eru víðast greiddar 60 kr. árlega, og má það heita viðunandi. Ef nú er miðað við þetta, og áætlaðar 60 kr. til hverrar af þessum 57 stöðvum, og að 2/3 kostnaðar væri borgaður af landssjóði en 1/3 af sveitarsjóðum, þá er það, sem um er að ræða fyrir landssjóðinn 57X40 eða 2.280 kr. Þetta er þá allt og sumt, sem vinst, því meira en þetta er óþarfi að borga upp og ofan, því þótt það væri oflítið sumstaðar, þá væri hægt að komast af með minna á öðrum stöðum.

Finst nú háttvirtum þingdeildarmönnum, að það svari kostnaði fyrir landið, að beitt sje argasta misrjetti við sum landsins börn fyrir jafnlítinn ávinning og liðugar 2.000 kr. eru. Jeg vona, að svo sje ekki. Og að hjer sje sannarlegt misrjetti um að ræða, vona jeg, að menn verði að játa. Sveitirnar leggja fyrst fram stórmikið fje til þess, að ýmsar línur komist upp, en síðan kosta sömu menn starfsrækslu á stöðvunum. Kaupstaðarbúarnir leggja aftur á móti ekkert fram til hvorugs — hreint ekki neitt. Jeg álít því, að herfilegt og óviðunandi misrjetti komi hjer fram, að sumir þurfa ekki að leggja neitt fram, en aftur sje fje plokkað úr vasa annara hvað ofan í annað. Jeg álít, að þetta sje ósæmilegt fyrir þjóð og þing og frumv. því ekki þess vert, að verða að lögum í þeirri mynd, sem það hefur nú.