24.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

32. mál, merking á kjöti

Flutn.m. (Stefán Stefánsson):

Eg flyt þetta mál inn á þingið samkv. ósk þingmálafunda í Eyjafjarðarsýslu. Málið lá fyrir síðasta þingi, borið fram af landbúnaðarnefndinni, og var þá stutt aðallega af 2. þm. Hún. (B. S.) og þm. S.-Þing. (P. J.). Hin helstu mótmæli er komu fram á móti því, voru aðallega frá þm. Dal. (B. J.) að mig minnir. Eigi að síður var það þó samþykt hér í Nd. og komst til Ed., en þar var það lagt á svæfilinn. Það sem aðallega var haft á móti frv. var, að sú trygging, sem íslenzkt kjöt þegar væri búið að fá með merking dýralæknis sem verulega góð verzlunarvara, mundi hverfa ef alólæröum mönnum yrði leyft að brúka merki dýralæknis, þó þeir fengju dálitla tilsögn hjá honum. Með þessu frv. hefir verið reynt að bæta úr þessum annmarka, á þann hátt að ákveða að aðeins dýralæknum og lögskipuðum læknum sé leyft að nota stimpilinn. Þessi hugmynd, eða veruleg efnisbreyting, er ekki frá okkur komin, heldur hefir dýralæknirinn á Akureyri bent á hana. Hann álítur þetta eina úrræðið og vel tiltækilega leið, enda fáum við flutningsmenn ekki séð neitt varhugavert að fara að hans tillögum að þessu leyti. Það mun öllum ljóst hversu mikilsvert mál þetta er fyrir kjötmarkað vorn, þegar þess er gætt að merking hækkar verðið á kjöttunnu um alt að 8 kr. En nú er að eins tveim mönnum á landinu, sem sé dýralæknunum, leyft að nota stimpilinn og merkja kjöt, svo að auðvitað er að aðeins lítill hluti af kjöti því, sem til útlanda er sent, er merkt dýralæknismerki. Þetta ástand er mjög sennilegt að hafi leitt til þess, að óstimplað kjöt sé nú selt lægra verði, en vera mundi ef ekkert kjöt væri stimplað. Nú hafa Danir gert ráðstafanir til þess að framvegis verði ekkert óskoðað kjöt og þó merkt dýralæknismerki selt í Danmörku. Það er því ljóst að þá kemst íslenzkt kjöt ekki lengur inn á danskan markað nema samskonar ráðstafanir séu gerðar hvað snertir útflutt kjöt. Það er beinlínis brýn nauðsyn á að hrinda þessu máli áfram og finst okkur þá hyggilegast að taka það ráðið sem dýralæknirinn hefir bent á, enda hafa læknar undirbúningsmentun til slíkra hluta; sjúkdómsfræðilega þekkingu munu þeir hafa áþekka dýralæknum, og verða því einkum að kynna sér það sem frábrugðið er að þessu leyti, og eins hið verklega við skoðunina.

Mál þetta er svo óbrotið að eg sé ekki ástæðu til að stinga upp á nefnd, þó eg hins vegar setji mig ekki verulega á móti nefndarskipun, verði hún álitin nauðsynleg, en þó í því trausti, að ekki verði um of dráttur á málinu, því það verður að komast fram á þessu þingi. Annars mun eg ef til vill koma fram með smá breytingar við frumv. við 2. umr.