19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

37. mál, vörutollur

Eg hefi þó tekið það fram hvað eftir annað, að í rauninni væri engin þörf á að auka tekjurnar. Allra síst er nú þörf á slíku, þegar samþykt er frv, lotterífrumvarpið, sem eitt út af fyrir sig fullnægir þörfum landssjóðs, án þess að almenningur verði nokkuð við það var. En eg hefi sagt, að ef á annað borð ætti að samþykkja frv. um nýja skatta, þá bæri að samþykkja það sem væri réttlátara, og því hefir enginn mótmælt að verðtollurinn sé réttlátari en farmgjaldið. Það sýnist vera nokkur munur á því, að halda fram sæmilega réttlátum tolli og að berjast fyrir ranglátum tolli, eftir að landssjóði eru útvegaðar miklar tekjur með lotterílögunum. Annars má enn minna á það, að jafnvel hæstv. ráðh. lagði til í skattamálanefndinni að leggja verðtoll á manufacturvörur. Hann og hv þm. G.-K. (B. K) sögðu að verðtollur kæmi ranglátar og harðar á þjóðina en farmgjaldið. Út af því leyfi eg mér með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp töflu til samanburðar. Eftir verðtollsfrv átti tollurinn að nema 3%. Farmgjaldið verður aftur eins og hér segir á nokkrum nauðsynjavörum:

Rúgur og rúgmjöl 4%

Jarðepli 10%

Skipsbrauð 12%

Saltkjöt 7%

Alls konar saumur 8%

Tjörupappi 4%

Asfalt 25%

Eldfastur leir 75%

Gaddavír 10%

Trjáviður 4%

Karbolineum 20%

Salt 10%

Kaðlar 3%

Carbid 10%

Kork 11%

Kítti 12%

Krít 50%

Stagavír 8%

Blý 7%

Blackwarnish 15%

Vélaolía 6%

Hrátjara 14%

Baggings 6%

Maís, bygg og hafrar 4%

Melasse 6%

Eg vona að flestir aðrir en hæstv. ráðh. (H. H.) og hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sjái það, að þungagjaldið er mun hærra, að minsta kosti á þessum vörum, en okkar gjald.

Hæstv. ráðh. (H. H.) sagði að eg hefði ekki gert nema 75 þús. kr. til fjáraukalaga og annara aukagjalda. Þetta er fjarri öllum sanni. Eg liðaði það í sundur sem borga þyrfti og var það: 30 þús. kr. til aukaþings, 24 þús. kr. í prestlaunasjóð, 50 þús. kr. vextir af veltufé landssjóðs, 75 þús. kr. til fjáraukalaga og 100 þús. kr. til hafnarinnar. Ráðherra hefir altaf haldið því fram að tillagið til hafnarinnar sé 500 þús. kr. en í lögunum stendur bara 400 þús. kr. Eg gerði þannig ráð fyrir 279.000 kr. aukagjöldum. Það er sagt að fáir skrökvi meir en helming, hér er þó miklu meiru skrökvað. Hæstv. ráðh. sagðist þurfa fjarskamikid fé en nefndi þó ekki önnur ný gjöld en 60.000 kr. virði til pósthússins. Eg býst við að ráðh. fari ekki að borga út fé til þess, án heimildar frá þingi, og þó kemur sú útborgun ekki til fyr en eftir Alþingi 1913. Eg sé heldur ekki að okkur þurfi að vaxa svo ákaflega í augum þótt aukaþarfirnar yrðu eitthvað um eða yfir 300.000 kr. Á tímabilinu 1910—’11 var borgað umfram fjárveitingu 500 þús. kr., en varð tekjuafgangur. Það er ekki hægt að álykta, að tekjuhalli þurfi endilega að verða, þó að töluverðar greiðslur falli til, fram yfir veitingu, enda hefir það altaf slampast nokkurnveginn af hingað til. Og að minsta kosti er þarflaust og jafnvel ekki forsvaranlegt að grípa til ranglátra skatta af tómri hræðslu fyrir aukagjöldum.

Hitt skil eg vel að ráðherra, slíkur rausnarmaður sem hann er, vill hafa sem mest fé milli handa en nauðsyn er engin til þess. Og þó áhættulaust kunni að vera að fá honum mikið fé í hendur, þá er það sannarlega ekki altaf áhættulaust, því brúkunin fer iðulega eftir því, hversu mikið ráðsmaðurinn eða ráðskonan hefir milli handa.

Þá vil eg víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) út af póstsendingagjaldinu hans, sem hann ætlast til að verði 15 au. af hverri sendingu, hvað sem sent er. Nú vita allir, að það er leyfilegt að flytja 10 pd. í böggli. Og það sem sent er með pósti kvað sérstaklega vera skófatnaður, dýrari vefnaðarvara og vindlar. Kunnugur maður hefir sagt mér, að af svokölluðum fínum skófatnaði, sem kostar 10—15 kr. parið, fari 10 pr. í 10 pd. að jafnaði. Er nú nokkur meining í því, að einn kaupmaður geti byrgt upp alla verzlun sína með því að borga aðeins 15 au. af hverjum 100—150 kr. Mér er ennfremur sagt að pundið af silki kosti að meðaltali 30 kr. Eftir því má senda silki fyrir 300 kr. í einni sendingu, og sjá væntanlega allir, að það er lítið réttlæti í því, að tollur af því skuli ekki vera nema 15 aurar, en af 300 kr. virði í eldföstum leir skuli tollurinn nema 225 krónum.

Áður en eg sezt niður langar mig til að beina þeirri spurningu til h. þm. (B. K.), hve mikið hann hugsar sér að farmgjaldið gefi í landssjóðinn. Getur hann gefið mér ábyggilega skýrslu um það?

Svo vil eg víkja mér að hv. 2. þm. Rv. (J. J ). Hann kastaði fram hugsun, sem eg hafði líka ætlað mér að minnast á, það var um kolatoll hv. efrideildar. Auðvitað er mér það mjög á móti skapi, að leggja toll á jafnmikla nauðsynjavöru og kolin eru, en ætti eg að velja um það tvent, að tolla kolin og þar að auki margar aðrar vörur og það mjög hátt, eða þá kolin ein, þá mundi eg óhikað velja hið síðara, og það jafnvel þótt tollurinn yrði 1,50 kr. á tonnið, eins og Ed. vill hafa hann. Nú er sagt að hingað flytjist 90 þús. tonn af kolum á ári, sumir segja 80 þús. Gerum ráð fyrir að hið síðara sé rétt, og skilst mér þá að ef lagður væri krónu og fimmtíu aura tollur á tonnið, þá mundi það nema 120 þús. kr. á ári, eða 240 þús. kr. á fjárhagstímabilinu. En ef reikna má 90 þús. tonn, þá 270 þús. kr. á fjárhagstímabilinu. Þetta eitt út af fyrir sig mundi gera betur, en að jafnast á við þær tekjur, sem þetta frv. mundi útvega, ef það yrði samþykt.

Loks vil eg endurtaka það, að eg er samdóma framsögum. minni hl. á þingi 1911, herra Hannesi Hafstein, um það, að þetta frv. „er eins og kjaptshögg á öll „princip“ í gildandi lögum um þetta efni, og þenna gagngerða umsteyping, alt þetta nýja, erfiða og umsvifamikla bákn á að setja á stofn, að eins til bráðabirgða“.

Eg mun auðvitað greiða atkv. með mínum brtill., en svo mun eg, eins og hv. 2 þm. Rang. (E. P.), greiða atkv. móti frv. sjálfu, þegar þar að kemur, og vildi eg óska að haft yrði nafnakall um það.