20.08.1912
Efri deild: 29. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Þórarinn Jónsson:

Það var satt, sem háttv. 2. kgk. þm. tók fram, að ósamræmi væri í breytingartillögunum. Því var það, að jeg vildi engar breytingar gera, að jeg sá, að jeg gat ekki vigtað það svo, hvað sanngjarnt væri, og hvað ekki. En þar sem jeg þekki sjerstaklega til, og veit, að landsímastjórnin hefur ekkert á móti því, þá mun jeg gera breytingartill. við 3. umr. um það, að setja línuna til Hvammstanga á 3. gr. eða 2. flokk, ef að þær breytingartillögur, sem hjer liggja fyrir, verða samþ. Háttv. þingm. Strandamanna gat þess, að hreppana munaði ekkert um það, að kosta starfsræksluna. Þetta er alls ekki rjett álitið.

T. d. hefur þurft til að borga til Blönduósstöðvarinnar 2—400 kr., og er það mikið fyrir lítinn hrepp, þar eð illa gengur að fá fje frá næstu hreppum. Árið 1911 frá ársbyrjun til 11. okt., þegar stöð þessari var lokað, þá voru tekjurnar af henni orðnar 2082 kr. En hvað skeður svo, þegar hreppurinn færist undan að borga til stöðvarinnar.

Landsímastjórnin lokar stöðinni og brýtur þannig hreint og beint lög og rjett.

Ef símastjórnin hefði álitið, að hreppurinn væri skyldugur til þess að borga, þá var þetta ekki leiðin, heldur að ganga að hreppsnefndinni, en svifta ekki símanotendur þeim rjetti, er þeir óskorað höfðu, en líklega hefur símastjórninni þótt þessi leið hál, úr því hún ekki fór hana. Og það var ekki henni að þakka, að mál þetta fjekk sæmilegan endi. Þegar nú símastjórnin snýst þannig í einstökum atriðum símamálsins, þá skapar hún sjer ekki traust í þeim yfir höfuð, eða kemur þeim í betra horf, og svo mun jafnvel verða, þó þetta frumvarp yrði að lögum.

Þá getur það og verið mikið efamál, hvort rjett sje að draga það að leggja nýjar línur, unz nægur fæst tekjuafgangur af símanum. Í sumum tilfellum getur það hreint og beint verið hagfræðilega rjett, að taka lán til þess að leggja nýjar línur, og alls ekki rjett, að láta landssjóðinn verða af símatekjum árum saman, vegna þess að menn vilja ekki byggja línur með lánum. Tökum t. d. Siglufjarðarlínuna, sem borgaði sig á tveimur árum. — Fjölyrði jeg svo ekki meira um þetta mál, og mun ekki geta greitt því atkvæði.