19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

37. mál, vörutollur

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg skal ekki vera að bera í bakkafullan lækinn, með því að lengja mikið umræðurnar. Eg vil geta þess, að bæði þessi tollafrumvörp hafa verið sem eitur í mínum beinum. Hitt frumvarpið kaus eg þó mikið heldur af því að mér fanst það vera réttlátara. En í þessu frumvarpi virðist að eins vera litið á það tvent að gefa landssjóði gnægð en valdsmönnum hægð og ekkert litið á hvort þetta komi réttlátlega niður á alþýðu. Úr því sem komið er og af því að eg veit að það muni vera fyrirfram ákveðið að frumvarp þetta skuli verða að lögum — það er prædestinerað — þá vil eg greiða atkvæði mitt með þeim breytingartillögum sem eg álít að vera muni til bóta og á eg þá við brtill. á þskj. 310 og þá sérstaklega tillöguna undir tölulið 5, þar er minstur tollur lagður á kolin og bið eg menn að athuga það vel og vona fastlega að hún verði samþykt.

Eg get ekki séð að það sé rétt sem hæstv. ráðherra (H. H) sagði, að það væri til að tefja fyrir málinu, að menn koma með breytingartillögur og vilja lagfæra frumvarpið. (H. Hafstein: Tefja fyrir innheimtunni). Það er heldur ekki rétt, því að tollflokkarnir verða ekki fleiri en áður og ekki margbrotnari en áður innheimtan því ekki verri né tafsamari en áður. Einnig er mér sérstaklega vel við 9. brtill. á þskj. 310, að í frumv. standi eftir „heyi“: „mais, byggi, höfrum og melasse“. Vegna þess að í ísa-ári getur það verið lífsnauðsyn að kaupa jafnvel heila skipsfarma af skepnufóðri.

Það var ekki rétt hjá hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) að seinast hefði verið flutt inn geysi mikið af fóðri handa skepnum árið 1880, það er ekki lengra síðan en á árunum 1906—’07 að þetta var gert — fluttur heill skipsfarmur eða tveir.

Svo skal eg ekki fara fleirum orðum um þetta að svo stöddu, en eg mun greiða atkvæði með öllum þeim breytingartillögum sem eg álít að séu frumv. til bóta.