19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

37. mál, vörutollur

Sigurður Sigurðsson:

Eg hefi leyft mér að koma með 2 breytingartillögur við þetta frumv., á þskj. 308 og fer önnur fram á að færa kornvörur í lægri tollflokk en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. En úr því að eg sé að hv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) hefir tekið þessa brtill. mína upp í brtill. sínar, þá tek eg hér með aftur þessa mína breytingartillögu.

Eg vil geta þess viðvíkjandi korninu, að það er sú vara sem enginn landsmanna getur verið án og síst allra fátæklingar. Eg hygg að segja megi um marga aðra vöru, að takmarkað gætu menn kaup sín á þeim, en það er alls ekki hægt að segja það um kornvörurnar, og vil eg því að tollurinn á þeim sé sem lægstur.

Að öðru leyti er það að segja um þetta frv., að þegar búið er að samþ. þær brtill. sem eru til bóta, þá verður það ekki sagt með réttu, að það komi eins óréttlátlega niður eins og hér hefir verið orð á gert.

Eg álít að tollar, þeir er frumvarpið gerir ráð fyrir, komi niður á mönnum í samræmi við efni þeirra og ástæður. Þeir verzla að jafnaði mest og kaupa dýrast, er beztar hafa ástæðurnar, og borga um leið mest í landssjóðinn, og er það í sjálfu sér eðlilegt.

Að staðhæfa það, að verðtollur eða farmtollur komi mest niður á kaupstaðarbúum og sjómönnum, er mjög hæpið, og ekki nema hálfur sannleikur. Allir sem til þekkja, vita það, að nú eru sveitamenn farnir að verzla mjög mikið. Þeir verzla nú orðið „of mikið“ eins og Torfi í Ólafsdal hefir minst á og varað við. Sveitamenn kaupa alskonar vefnaðarvöru og fatnað, þar á meðal skófatnað og ótal margt annað af alskonar vörutegundum. Það yerður því ekki með sanni sagt, að mínu áliti, að tollur þessi komi eingöngu eða aðallega niður á sjómönnum og kaupstaðarbúum; langt í frá.

Því næst vildi eg leyfa mér að fara nokkrum orðum um brtill. á þgskj. 316. Hún miðar að því að færa til eina vörutegund, sem sé jarðepli, í 2. lið í sömu grein á eftir heyi, og hækkar þá tollur á þeim úr 10 aurum upp í 25 aura. Ástæðan til þessarar hækkunar er sú, að enginn vafi getur á því leikið, að mönnum ætti að vera í lófa lagið hér á landi að rækta allar þær kartöflur sem vér þurfum að nota, og meir en það. Þessi tollur ætti þá að verða óbeinlínis til uppörfunar að rækta sem mest af kartöflum, án þess þó að hann geti talist að vera reglulegur verndartollur. Það er hreinasta hneyksli að vér skulum flytja hér inn kartöflur. Það vita flestir að vöxtur þeirra bregst nærri aldrei, og að kartöfluuppskeran er mjög árviss í mörgum héruðum þessa lands, t. d. í Reykjavík, Akranesi, Hafnarfirði, Akureyri og víðar.

Hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) sagði að innflutningur á heyi gæti komið sér mjög vel í misæri. En eg álít útlent hey mjög illa fallið til notkunar hér á landi í harðindum og fóðurskorti, vegna þess, að allur flutningur þess verður svo erfiður og kostnaðarsamur. (Lárus H. Bjarnason: Það var maís, bygg og melasse sem eg átti við). Hvað viðvíkur þeim fóðurtegundum, þá eru þær hlutfallslega dýrari en aðrar fóðurtegundir, miðað við efnainnihald þeirra, t. d. olíukökur og fóðurmjöl, þar á meðal hvalkjötsmjöl, síldarmjöl og síldarkökur. Og þessar fóðurtegundir eru búnar til hér á landi, og ættu menn því fremur að nota þetta til fóðurs þegar heyskort ber að höndum.

Það var sagt að þjóðin óskaði ekki eftir nýjum álögum, og má það rétt vera. En þjóðin óskar heldur ekki eftir því að alveg verði tekið fyrir alla menningar- og framkvæmdastarfsemi hér á landi, og eg er þess fullviss, að þjóðin kýs heldur að taka að sér að greiða nokkrar álögur en að lagðar verði árar í bát með alla vegagerð, símalagningu og aðrar framfarir í landinu. Það er auðvitað gott að spara og vona eg að þær raddir, sem heyrst hafa í þá átt, láti þá til sín taka á næsta þingi og reyni til að hefta ögn þann bitlingaaustur og aðra óþarfa fjáreyðslu, sem átt hefir sér stað á undanförnum þingum.

Fjármálanefndin sem skipuð var á þinginu 1911, gerði ráð fyrir, að landssjóð mundi vanta 700 þús. kr., ef halda ætti líkri stefnu í framkvæmdum hér á landi og verið hefir síðustu árin.

En þó nú farmtollurinn komist á, þá nemur hann ekki nema 500 þús. kr. yfir fjárhagstímabilið, og vantar þá um 200 þús. kr. til þess að fullnægja því, er fjármálanefndin taldi að mundi þurfa.

Það hefir verið bent á, að af væntanlegu „lotteríi“ mundi fást álitlegur gróði. En honum vildi eg helzt verja til einhvers sérstaks fyrirtækis, eða til sérstakra þjóðstofnana, eins og áður er búið að taka fram, og ætti þá ekki að reikna með þeim tekjuauka þegar verið er að bollaleggja árlegar tekjur

og útgjöld landsins.