16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

38. mál, skipun læknishéraða (Hnappdælahérað)

Eggert Pálsson:

Eg stend ekki upp til að mótmæla því, að þetta læknishérað verði stofnað, en það er nefndarálitið sem eg finn ástæðu til að athuga. Nefndarál. gripur auðvitað yfir alt það, sem vísað var til þeirrar sömu nefndar, og meðal annars inniheldur það alllangan kafla hljóðandi um það læknishérað, sem eg og hv. samþingismaður minn höfðum lagt til að stofnað yrði milli Jökulsár og Þverár. En þar er svo herfilega rangt skýrt frá, að eg get ekki komist hjá að leiðrétta það.

Eg gat þess þegar í upphafi, þegar eg bar þetta mál fram, að milli Jökulsár og Þverár ættu heima um 1600 manns, en nú sé eg að það er orðið að 900 í nefndarálitinu, og er það engu líkara en að hér sé verið að lýsa mig ósannindamann í þessu efni. Til þess að taka af öll tvímæli hefi eg nú leitað upplýsinga hjá manntalsskrifstofunni, og kemur það þá í ljós, að í Hólsprestakalli einu saman eru 900 manns. Svo bætist við í Landeyjapr.k. 620 og eru það þá orðið 1520 manns, og loks komu til nokkrir bæir úr Breiðabólsstaðar- og Odda-pr.k., sem liggja fyrir framan Þverá er nálægt 100 manns búa á, svo að fólksfjöldinn á þessu umrædda svæði mundi verða eins og eg sagði, full 1600 alls, í staðinn fyrir um 900 eins og stendur í nefndarálitinu. En þegar svona skakt er farið með, þá er engin furða þótt það hafi áhrif á niðurstöðu þá sem nefndin komst að, og að henni þyki ekki brýn þörf á að stofna hér nýtt læknishérað. Það munur um minna, en að draga 700 frá 1600.

Það er ennfremur skakt í nefndarálitinu, að þótt sérstakur læknir fengist í þetta hérað, þá gæti mörgum verið jafn ómögulegt, vatnanna vegna, að vitja hans eins og þeim er að vitja þeirra lækna, sem nú eru.

Að þetta sé rangt getum við gert oss ljóst með einföldu dæmi. Setjum svo að læknissetrið væri austanvert við Markarfljótið. Þegar nú vatnið lægi í Markarfljótsfarvegnum, þá hindraði það eigi á neinn hátt þá sem milli Jökulsár og Markarfljóts búa, frá að ná til þessa síns læknis. Hinir aftur á móti, sem vestan Markarfljóts byggja, ættu þá á hina hliðina fyrir sér greiða og torfærulausa leið vestur yfir Þverárfarveginn, sem lítið sem ekkert vatn væri í, til læknisins í Rangárhéraðinu. Lægi aftur á hinn bóginn vatnsmagnið í Þverár-farveginum ættu íbúar þess héraðs, Eyjafjallahéraðs, bæði að austan og að vestan, jafn greiða og torfærulausa leið til síns eigin læknis.

Það er nú að vísu bent á dragferju sem eigi að koma á Þverá, sem geti bjargað öllu við, en hún er nú ókomin ennþá og af landsverkfræðingnum talin mikil tormerki á að koma henni á, svo að hennar getur þannig orðið langt að bíða. (Sigurður Sigurðsson: Það er meðan lítið er í Þverá). Það getur verið. En þó að í henni vaxi, þá er ekki dragferja komin þegar í stað. Að minsta kosti var mikill vöxtur í Þverá þegar eg fór til þings, og hún því sem næst ófær eins og vant er um það leyti, og var ekki til neinnar dragferju hægt að grípa, og svo býzt eg við að verða muni í framtíðinni. Annars skal eg ekki þreyta hv. deild með lengri ræðu í þetta sinn og læt því hér með staðar numið. En þetta vildi eg taka fram, og það því fremur sem eg býzt við, að mér gefist ekki kostur á að ræða meira um okkar eigið frv., stofnun Eyjafjallahéraðs, með því að engar líkur eru fyrir að það hafi nokkra þýðingu að halda því frekar fram að þessu sinni.