16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

38. mál, skipun læknishéraða (Hnappdælahérað)

Einar Jónsson:

Þótt allir séu nú orðnir þreyttir af öllum þessum ræðum og ekki nema annarhver maður í sæti sínu, þá vil eg nú samt gera grein fyrir því, hvers vegna eg skrifaði undir nefndarál. með fyrirvara.

Eg er ekki samþykkur nefndinni í því að stofnuð verði fleiri læknahéruð. Sum héruðin, sem beðið er um, eru of smá til þess að fá lækna í þau. Í sumum héruðunum eru læknar alveg ónýtir og væri meiri þörf að setja nýja lækna í þeirra stað, en að stofna ný læknahéruð, sem eru svo smá, að varla yrði hægt fyrir lækni að lifa þar.

Eg álít enga þörf á því að þingið stofni fleiri læknahéruð, þau eru orðin svo mörg og ef altaf yrði bætt einu eða fleirum við á hverju þingi, þá mundi það enda með því, að læknir verður á öðrum hvorum bæ.

Eg er því samþykkur því, að háttv. framsögum. taki frv. aftur og vil eg biðja hæstv. forseta að minnast þess.

Hvað það snertir, sem landlæknir segir, að ekki geti komið til mála, að læknirinn sé fluttur úr Borgarnesi, þá hefir nú landlæknirinn orð fyrir að vilja sínum læknum vel og vilji ekki gera þeim lifið erfiðara en þörf gerist. Annars álít eg það góða reglu að landssjóður greiði læknum einhverja aukaborgun fyrir að gegna nábúahéraði, sem er of lítið til þess að einn læknir geti lifað þar. Ekki tala eg þannig af því að mínu læknishéraði sé betur farið en öðrum, hvað læknir snertir, og sýnist mér að háttv. þm. Dal. (B. J.) geri sig ánægðan með það sama.

Hvað snertir hv. 2. þm. Rang. (E. P.) þá get eg ekki gert að því, þó hann sé svo heppinn að góð grasspretta sé hjá honum og fólksfjölgunin í sóknum hans eftir því. Annars hélt eg, að mannfjöldinn í þessu fyrirhugaða héraði hefði til skamms tíma ekki verið mikið yfir 900.