20.08.1912
Efri deild: 29. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg var í nefnd þeirri, er meðhöndlaði málið, og fer því ekki lengra í neinum efnum en nefndin gerir, og mjer þótti tillaga nefndarinnar um Vestmannaeyjasímann mjög varhugaverð með því að hún gæti dregið fleiri dilka á eftir sjer, enda er nú komin fram breytingartillaga um Siglufjarðarsímann.

Háttv. 2. þm. Árnesinga (J. J.) var mjög mikið að tala um sanngirni og rjettlæti, en það er ómögulegt að gera öllum hjeruðum rjett til, og ef tillaga hans væri tekin til greina vegna þess að síminn borgi sig þar vel, þá væri það aðeins til að flytja hallann á önnur hjeruð. Þessi grundvallarregla, er kemur fram hjá háttv. þm., er gersamlega óframkvæmanleg, eins og háttv. 5. kgkj. þm. (St. St.) sýndi fram á við þingsályktunina um hve mikið ætti að leggja í dagsverk á Vesturlandi; annars hafði nefndin fyrir augum að spara eins mikið og hægt er án þess að draga saman kvíarnar. Að vera þannig að tala um ósanngirni í því, að hjeruðin leggi fram nokkuð af kostnaðinum við lagningu símans og rekstur stöðvanna, er ekki rjett, og ef því væri breytt, þá væri það að sýna mun meiri ósanngirni þeim símum, sem til greindir eru í 4. gr., því að þeir eiga fyrst að leggjast, þegar landsíminn getur kostað þá, og kæmi vitanlega seinna, ef hinum kostnaðinum, er jeg gat um áðan, væri dembt á hann.

Það er fyrst tími til þess að fara að spara í þessu efni fyrir hjeruðin, þegar símanetið er komið um alt land; en meðan svo er ástatt, að víða vantar símann, þá ættu hjeruð þau, sem þegar hafa fengið hann, að geta beðið róleg, en ekki fara að fitja upp á smámunasemi, ef þau halda, að þau græði nokkra aura á henni. Og allra sízt situr slíkt á þeim sýrslum, sem hefur verið ausið fje í úr landssjóði til allra þeirra þarfa, svo heita megi, að þar sje ekki til sá vegarspotti, sem ekki sje gerður af landssjóði eða með styrk frá honum. Slík framkoma er með öllu ósæmandi gagnvart öðrum hjeruðum, er lítið eða ekkert hafa fengið, og ætti háttv. 2. þm. Árness. (J. J.) því ekki að bera fram kveinstafi fyrir hönd sýslu sinnar.

Sem nefndarmaður greiði jeg atkvæði með því, að setja Vestmannaeyja símann í 1. flokk, því að setja símann til Miðeyjar, sem ekki borgar sig, í 1. flokk, eins og til tals kom, en sleppa símanum til Vestmannaeyja, er ber sig, álít jeg ekki rjett. Jeg mun greiða atkvæði með tillögum nefndarinnar Jeg játa að vísu, að síminn til Siglufjarðar gefur af sjer góðar tekjur, en hann hefur ekki eins almenna þýðingu fyrir landið í heild sinni eins og Vestmannaeyjasíminn. Siglufjarðarsíminn er aðallega fyrir útlendinga, þegar þeir eru þar að fiskveiðum á sumrum.

Hvað snertir breytingartl. á þgskj. 329, þá greiði jeg hiklaust atkv. á móti henni. Mjer finst engin ástæða til að gefa hjeruðunum undir fótinn, að landssjóður muni taka að sjer starfræksluna með tíð og tíma. Menn mega yfirleitt þakka fyrir að geta haft stöðvar í sinni sveit. — En fjarri fer því, að sjálfsagt sje, að hjeruðin þurfi ekki að leggja til stöðvanna, sem eru á l. flokks línum, því að nær allar stöðvar t.d. á línunni frá Borðeyri til Ísafjarðar eru studdar af hjeraði sínu. Og eru öll hjeruðin hreint ekkert of góð til þess. Og með því augnamiði, að koma símanum sem víðast yfir landið, álít jeg þetta sjálfsagt.

Brtill. á þgskj. 259 kom frá mjer fyrir löngu síðan, áður en nefndin kom til sögunnar. Jeg bjóst aldrei við að koma í þá nefnd. Hún hefur tekið tillöguna til yfirvegunar, og hefur hún ekkert við fyrri liðinn að athuga; það, að bæta við síma til Reykjafjarðar í Strandasýslu. En jeg hefði ekki farið fram á þetta, ef símastjórinn hefði ekki álitið það viðeigandi, að setja þessa línu í 4. gr., svo hún geti þá komið, ef hjeraðið vill leggja til hennar. En um þetta er ekkert ákveðið, þótt brtill. nái fram að ganga. Jeg veit ekkert, hvort sýslan vill leggja nokkuð til að sinni. Þeir þar vilja efalaust ekki taka lán, og sýslan er sparsöm og efnalítil; hefur líka á prjónunum kostnaðarsöm fyrirtæki, svo sem sjúkraskýli. — Með þessu sjest aðeins að komið hafi til mála að leggja þessa línu. Hún verður heldur ekki löng í samanburði við sumar línurnar, sem settar hafa verið í frumvarpið, svo sem línan til Kirkjubæjar á Síðu, sem verður 80—100 kílóm. en þessi eitthvað um 30 kílóm., reiknað frá Hólmavík. Jeg hef ákveðið endastöðina á Reykjarfirði en ekki Norðfirði, því jeg álít að Norðfirðingar geti hæglega notað stöðina á Reykjarfirði, og mættu þakka fyrir, ef stöð kæmi þar.

Og frá Gjögri er að eins 1/4—1/2 míla á sjó, svo þaðan er mjög þægilegt að sækja. Framleiðslan á þessum báðum stöðum mun vera lík og hún er á Hólmavík, en jeg hef ekki getað hitt á það í verzlunarskýrslunum, hve mikil hún er. Stöðin á Hólmavík gefur af sjer 888 kr. á ári, svo sjá má, að hún er talsvert notuð. Og ekki verður hún minna notuð, línan til Reykjarfjarðar, meðan læknislaust er þar. Svo eru þetta fiskistöðvar fyrir Ísfirðinga og Steingrímsfirðinga, allir þessir staðir: Reykjarfj., Norðfj. og Gjögur; því er jeg viss um, að þessi stöð verður notuð. Þá má og geta þess, að stöð á Reykjarfirði mun geta gefið fyrst fregnir um ís, þ. e. af þeim stöðvum, sem nokkur vitneisti er í að gera að símastöðum. Auðvitað sjest fyr, hvað ísnum líður frá Horni, en jeg tel ekkert vit, að leggja síma til þeirra 20—30 manna, sem búa þar norður frá. En rjett hjá Gjögri er svo nefnd Reykjaneshyrna. Þangað ganga menn vanalega upp, til þess að sjá til íssins. Einnig frjettist fljótt til Reykjarfjarðar, ef ís sjest frá Hornströndum. En á Hólmavík vita menn ekkert um ísinn, fyr en alstaðar er orðið fult af honum, nema í síma frá Ísafirði, og ekki fyr en allir firðir eru fullir. Því hef jeg oft hlegið, þegar menn hafa verið að síma til mín og spyrja um ís, þar eð við á Hólmavík vitum ekkert um hann, fyr en hann er kominn upp í nefið á okkur. — Þetta getur og mælt með því, að lína þessi verði lögð. Auðvitað getur liðið svo sem 10 ár eða meira, ef sýslan vili ekki leggja neitt fram, en það tel jeg rangt, ef hún fær kost á að fá síma með því móti; þó er ekki að búast við því, að þetta komist á í bráð.

Mjer finst þetta fremur mega standa í frumv. en Snæfjallalínan um Hesteyri og út á Horn. En því fer fjarri, að þetta sje mjer nokkurt áhugamál, eða jeg fáist í nokkur hrossakaup við nokkurn mann fyrir þetta mál. Svo „billeg“ hrossakaup legg jeg ekki út í. Þá ætla jeg að fara nokkrum orðum um 2. lið breytingartill. á þingskj. 254. Hann breytir alls ekki þeirri grundvallarregiu, að hjeruðin eigi að leggja til símans. Þann lið hef jeg tekið aftur, en vil skýra, hvernig á honum stendur. Jeg álit það ekki rjett, þegar 3 hreppar eru saman í hvirfingu, og stöð er sett í einn þeirra, þá kemur hluttakan í starfrækslukostnaðinum alveg niður á þann hreppinn, þótt allir hafi not af símanum. Til þess að jöfnuður kæmist á, þá vildi jeg, að sýslan borgaði helming þess fjár. Þetta er til þess að gera mönnum sæmilega ljett, að hafa stöð. En svo kemur það til greina, að hreppar geta verið í sýslunni, sem ekki einungis geta alls ekki notað stöðina, heldur hafa hreint og beint ógagn af henni. Þá er hart að leggja á þá gjald til stöðvarinnar. Því tók jeg þennan lið aftur. Jeg treysti mjer ekki til að orða það svo, að gjaldið kæmi niður á næstu hreppa. Það væri óákveðið til orða tekið. En formaður nefndarinnar hefur sagt mjer, að á Austurlandi borgi þeir þannig, að kostnaðurinn komi niður á næstu hreppa. En jeg hef ekki orðið var við slíkt fyrirkomulag hjer um slóðir. Jeg veit dæmi til þess, að þeir hafi verið ófáanlegir til að borga 10—15 kr. Neitað algerlega að borga nokkuð og þó notað símann jafnt á við þá hreppa, sem til hans borga. (Forseti: Má þá skoða 2. lið sem fallinn niður?). Já.