06.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) er hætt við því, eins og einstaka öðrum þingm., að sjá ofsjónum yfir lífskjörum embættismanna, og niðra þeim en lofa að sama skapi sjálfa sig. En það er hvorki fallega gert né hyggilega. Það á ekki að dæma menn eftir stéttum, heldur eftir því, hvernig þeir reynast, enda er stéttamunur hvergi minni en hér á landi. Margir af svokölluðum embættismönnum eru jafnframt bændur eða hafa verið, t. d. margir prestar, nokkrir læknar og einstaka sýslumenn. Og flestir af embættismönnum landsins eru bændasynir. Last um embættismenn yfirleitt er því ekki ólíkt því að gera í sitt eigið hreiður.

Það er satt, að margir embættismenn eiga við betri kjör að búa en almenningur, en þess verður þó jafnframt að geta, að þeir hafa kostað til undirbúnings starfi sínu, bæði miklum tíma og miklu fé, enda starfi flestra þeirra svo háttað, að þeir geta ekki tekið á sig aukavinnu, eins og þeir menn geta, sem eiga alveg með sig sjálfir.

Þegar frv. um flutning þingtímans var hér til umræðu man eg að hv. þm. vildi ásamt nokkrum öðrum miða þingsetutímann eingöngu við það, sem bændum væri hentast. En það var ekki rétt. Það á ekki að miða neitt við eina stétt. Að vísu hefir margur góður maður setið á þingi úr bændastétt, en þó er eg ekki viss um að þingið yrði stórum bætt, þó að á því ættu setu 40 Einarar Jónssynir. Hér hafa líka öll sæti sæmilega nýtir menn af öðrum stéttum, jafnvel úr svokallaðri embættismannastétt. Eg held að heildinni sé bezt borgið með því, að sem „flestra grasa“ kenni á þingi.

En eins og það tjáir ekki að miða þingið eingöngu við eina stétt, eins tjáir heldur ekki að miða kjör kennara alþýðunnar við kjör þeirra alþýðumanna, er lakast líður, það því síður, sem kennarar alþýðunnar eiga meðal annars að bæta efnahag hennar, þótt óbeinlínis sé. Bókstaflega tekið er það að vísu rétt, að bókvitið verður ekki látið í askana. En í raun réttri hefir þó „mentunin“ eða svokallaðir mentamenn búið til bæði askana og það sem í þá er látið, og yfirleitt alt sem við, hv. þm. og eg, brúkum.

Eftirtölur út af lítilsháttar bótum á hag alþýðukennara eru því ómaklegar, og hjá sumum líklega lítið betur hugsaðar en hinn óaflátanlegi jarmur út af kjörum embættismanna. Það væri óskandi að menn litu framvegis frekar á það, en hingað til, hvernig maður rækir starf sitt, heldur en á hitt, hverrar stéttar maðurinn er. Í mínum augum skiftir hið fyrra öllu máli, en hið síðara engu máli.