06.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Einar Jónsson:

Eg get ekki skilið hvers vegna hv. framsm. (L. H. B.) gat ekki haldið sér í skefjum, eða hverja ástæðu hann hefir til að bera mér á brýn embættismannahatur og segja, að eg jórtri eftir öðrum. Eg kannast ekki við það, að hafa sagt þau orð, er rætt var um flutning þingtímans, að á þingi ættu að sitja eintómir bændur. Slíkur útúrsnúningur gagnar ekkert hinum hv. þm. Eg vildi að eins að tekið væri tillit til þeirrar stéttar. Og að þingið væri ekki betur skipað þótt þar sætu 40 Einarar Jónssynir, kannast eg fúslega við. En eg er hræddur um, að þótt þar sætu 40 prófessorar eða 40 þm. á borð við h. 1. þm. Rv. (L. H. B.), þá væri þingið samt ekki eins gott og það ætti að vera, að minsta kosti mundi ekki batna við það samkomulagið né draga úr þingkostnaðinum við það; þingtíðindin mundu bera þess menjar.

Viðvíkjandi því sem hinn hv. þm. fór út í samanburð á kjörum embættismanna og alþýðumanna, þá veit eg vel að embættismenn kosta miklu til náms, en þess ber líka að gæta, að landið ber eigi alllitla byrði af því; það er ekki lítið fé, sem landssjóður leggur fram til náms þeirra.

Að svara fyrirspurn hv. þm. Dal. (B. J.) er gagnslaust; það vita allir, að fjöldi bænda bæði til sveita og sjávar býr við miklu lakari kjör en kennarar og embættismenn yfir höfuð, vegna þess að tekjur þeirra eru bæði óvissari og minni.

Það er líka rétt hjá hinum hv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.), að kennarar geta notað sér sumartímann eins og aðrir. Það er sá tíminn sem er eftirtekjumestur flestum mönnum, og kennurum ætti að vera það líka, ef ekki eru fatlaðir.