08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Bjarni Jónsson:

Það kann rétt að vera að ekki sé þörf á að halda fyrirlestur hér í deildinni um það, hvers virði mentun er í þessu landi. Eg hefi gert mig sekan í því áður og hv. þm., sem niður settist, hefir gert sig sekan í að læra ekki neitt af því.

Eina mótbáran móti frv. er sú, að ekki sé vert að auka útgjöld landssjóðs nú, þegar hann sé svo fátækur. Það er líklegt, að landssjóður sé svo fátækur nú, þegar nýbúið er að gera landið að lepp og leigja nafn þess fyrir margar þúsundir króna. Það mætti láta eitt hvað af þeim tekjum, sem af þessu fást, ganga til kennarastyrktarsjóðsins. Nú rekur hvert tekjufrv. annað hér í þinginu, svo að öll sanngirni mælir með því að svo fátæk stétt sem kennarastéttin er, verði látin leggja sem minst til þessa sjóðs. Það væri að vísu ekki frágangssök að hækka dálítið hundraðsgjaldið, sem kennarar greiða til sjóðsins, en þó ekki svo að þeir leggi meira fram en landssjóður. Ef eg væri í sporum flutningsm. brt., þá mundi eg taka till. aftur, og reyna að fá málið tekið út af dagskrá til að koma að breytingum í þá átt. Eftir þeirra eigin hugsunargangi er sú leið réttari.