26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

45. mál, tollgeymsla

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Ef sú áætlun er rétt að 390 þús. hafi verið í tollgeymslu um síðastl. nýjár á þessum aðalstöðvum Rvík, Ísafirði og Akureyri, þá verður það heldur lítið sem tollfrestur verður veittur á með frv. þessu. Síðan um nýjár hefir mikið verið leyst úr geymslu; það er gert daglega. Eg tel það hátt reiknað, að um næsta nýjár verði eftir 120 þús. í tollgeymslu. Eg býst við að sumir kaupmenn verði búnir að taka alt sitt áfengi. En auk þess er hér heldur ekki um ársfrest að ræða þó frv. nái fram að ganga. Menn búast við að alt verði uppselt um áramót 1913—14, og verður áfengið þá leyst úr tollgeymslu smátt og smátt árið 1913 og tollur borgaður jafnóðum. T. d. í júní næsta ár verður ef til vill ekki eftir nema 50 þús. í geymslu. Málið er því miklu minna en áhorfðist og getur ekki skift miklu fyrir landssjóð.