21.08.1912
Efri deild: 31. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Sigurður Eggerz:

Jeg hafði beðið um orðið við 2. umr. málsins; en umræður voru þá skornar niður, svo að jeg fjekk ekki færi á að tala. Jeg átti sæti í nefndinni og lýsti því yfir þar, að jeg væri mótfallinn öllum brtill. öðrum, en þeim, sem nefndin hefur stungið upp á. Og það er af því, að jeg óttast, að þær kunni að verða frumv. að falli. Um brtill, nefndarinnar var okkur nefndarmönnum kunnugt um, að þær mundu ekki tálma framgang frv. á þessu þingi, en þó að þær sjeu sanngjarnar, hefði jeg ekki verið með þeim, ef jeg hefði óttast, að þær mundu verða frumv. að fótakefli. Ekki svo að skilja, að jeg sje álskostar ánægður með þetta frumv., eða mjer þyki símamálum vorum komið í fullnægjandi horf, þótt það verði að lögum, því að jeg álít, að landssjóður eigi að leggja allar símalínur á sinn kostnað, og að á honum hvíli sömu skyldur um símasamband, eins og hann hefur um póstsamband, og það ekki eingöngu af því, að það er gróði fyrir hvert hjerað, að fá síma til sín, heldur og af því, að hjer er um mikið menningaratriði að ræða, og er ekki hvað sízt þörf á símanum til afskektra hjeraða. Það er því sjálfsagt, að flýta sem mest fyrir símalagningum. En nú er svo fjárhagnum farið, að eigi er til neins að fara lengra nú, en gert er í þessu frumv. Og það er bót í máli, að innan skams verða allir þeir símar lagðir, er nefndir eru í 2. og 3. gr., og fyrst á að leggja. Og þegar því er lokið, vona jeg, að fjárhagur landssímans verði kominn í það horf, að byrja megi á að leggja þær línur, er taldar eru í 4. gr. Þar eru margar línur, er óhjákvæmilegt er að leggja sem fyrst, eins og t. d. línan austur á Síðu og margar fleiri stakar línur.

Jeg vildi aðeins lýsa afstöðu minni til málsins; þótt frumv. sje engan veginn eins gott, og æskilegt væri, tel jeg samt bót að því, og greiði því atkvæði með því.

Um brtill. háttv. þm. Skgf. skal jeg geta þess, að mig brestur þar þekking á málavöxtum, svo að jeg get ekki skapað mjer skoðun á rjettmæti hennar, en jeg greiði atkvæði á móti henni, af því að jeg er ekki óhræddur um, að hún kunni að verða málinu að falli.