26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

46. mál, vátrygging fyrir sjómenn

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Eg skal leyfa mér að segja nokkur orð út af andmælum þeim, sem komið hafa fram á móti frv. Eg kannast við, að því er að ýmsu leyti ábótavant og er því fremur ástæða til að kjósa nefnd til að athuga það.

Um það, er hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að krafa sjómanna væri þar sem hann þekti til, sú að iðgjöldin til sjóðsins og þá jafnframt styrkurinn úr honum yrði hækkað, þá er það alt annað mál og vel þess vert að því sé gaumur gefinn. Eg get vel hugsað mér, að þeir sjómenn sem nú eru óánægðir með vátryggingarlögin geti fallist á það.

Eg vil nota tækifærið til að ámálga það við hv. sessunaut minn, að koma á framfæri því frv., sem eg veit að hann er búinn að búa til og láta það verða þessu samferða. Það er mikið rétt, að margir farast í sjó nú, án þess að þeir séu vátrygðir og liggja aðallega til þess 2 orsakir. Í fyrsta lagi koma margir menn á veiðistöðvar sem farþegar og róa þar nokkra daga, en eru eigi skipráðnir eða lögskráðir. Farist svo skipið sem þeir eru á, þá fá eftirlifendur þeirra engan styrk. En frv. tekur einmitt tillit til slíkra manna með ákvæði 1. gr. „sjómanna, er stunda fiskveiðar viku eða lengur“.

Hin orsökin er sú, að miklar vanheimtur munu vera á því, að sjómenn séu lögskráðir. Hreppstjórar ganga ekki nógu hart eftir skýrslum frá formönnum og vanrækja þeir því oft að lögskrá alla þá, er sjó stunda hjá þeim. En afleiðingin af því er aftur sú, að sjóðurinn stendur sig ver en ella mundi.