26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

46. mál, vátrygging fyrir sjómenn

Stefán Stefánsson:

Eg vil að eins geta þess gagnvart áliti síðasta ræðumanns, að mér sýnist ekki ástæða til að vísa málinu nefndarlaust til landsstjórnarinnar, því jafnvel þó nefnd eður þingið í heild hafi ekki nægan tíma eða fyrirliggjandi gögn til þess að gera stórar endurbætur á lögunum, þá fæ eg ekki betur séð, en það gæti verið mjög gott að stjórninni gæfist kostur á að fá bendingar og álit nefndar, sem rækilega hefði kynt sér málið.

Eg vil þessvegna leyfa mér að mæla á móti því að þessi rökstudda dagskrá verði samþykt, en styðja nefndarkosningu.