26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

46. mál, vátrygging fyrir sjómenn

Matthías Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætla að eins að víkja nokkrum orðum að hv. sessunaut mínum.

Eg hefi á prjónunum svipað frv. þessu, og kom til orða hvort við gætum ekki komið okkur saman, en það gat ekki orðið, því á frumvörpunum er mikill princip-munur. Í mínu frv. er farið fram á hækkun iðgjalda og hærri útborganir, en þetta frv. fer í alveg öfuga átt.

Það sem aðallega hefir vakað fyrir mér, er að finna ráð til að koma í veg fyrir að nokkur maður, sem atvinnu stundar á sjó eða vötnum, geti drukknað óbættur. Til að ná því takmarki sé öllum slíkum mönnum gert að skyldu að tryggja sig, hvort sem þeir eru á mannflutningaskipum, fiskiskipum, róðrarbátum eða ferjubátum, gegn ákveðnu iðgjaldi, sem þó er lægra en í öðrum líftryggingarfélögum.

Þegar svona stendur á, gat varla verið að tala um að við gætum brætt okkur saman, þó tíminn sé nú að mörgu leyti heppilegur til þess.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar þó til mikilla bóta á lögunum frá 1909, því eftir þeim er engin trygging fyrir að menn geti ekki farið í sjóinn hópum saman óvátrygðir. Það er mjög títt að menn stundi sjó styttri tíma en eina vertíð, en alveg eins hætt við að þeir menn drukkni, sem styttri tíma eru við sjó, eins og hinir, sem stunda sjóinn heila vertíð eða lengur.

Eg sé ekkert á móti að nefnd verði skipuð í málið, það getur skýrst við það, en greiða mun eg atkv. á móti rökstuddri dagskrá.