27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

47. mál, kosning sýslunefnda

Flutn.m. (Stefán Stefánsson):

Það fór svo sem mig grunaði, að við flutn.m. frv. fengum ekki einróma þökk fyrir að koma fram með nýmæli um kosningu til sýslunefnda. En satt að segja voru mótbárur hv. 1. þm. Rang. (E. J.) þannig lagaðar, að þær voru frekar meðmæli með frv. Hann sagði — eg skrifaði orðin hjá mér —, að „bændur ættu að hafa frjálsan og óháðan vilja“, en það er einmitt tilgangur frv., að stuðla að því, að bændur geti farið eftir sannfæringu sinni með öllu, frjálsir og óháðir. Þá leit hinn hv. þm. svo á, sem þetta væri að gera „lítið úr“ kjósendum. Er það þá að gera lítið úr kjósendum, að fara að þeirra eigin óskum? Nei, svo ramm-öfugar skoðanir bjóst eg ekki við að heyra hér í þingsalnum.

Að við flytjum frv. er beint eftir áskorun þingmálafunda í Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslum, en að bændur hafa óskað þessarar breytingar á kosningaraðferðinni er ljós vottur þess, að þeir álíta það vöntun í löggjöf vorri, að eigi eru lögboðnar leynilegar kosningar til þessara opinberu starfa eins og til annara öldungis samskonar, er eg nefndi í fyrri ræðu minni.