29.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Flutn.in. (Lárus H. Bjarnason):

Flestir hv. þm. munu vita, hvað lotterí er, en sökum þess að frumvarpið er nýr gestur, og af því, að ekki er víst, að allir hafi á takteinum, hvernig slíkum stofnunum er nánara fyrirkomið, skal eg gera stutta grein fyrir frumvarpinu.

Lotterí er stofnun, sem lysthafendur kaupa hjá vinningsvon. Hve rík sú vinningsvon er, fer eftir nánara fyrirkomulagi lotterísins. Fyrir vonina greiðir lysthafi tiltekið gjald, ársgjald eða víðast misserisgjald, og fær jafnframt kvittun eða heimildarbréf fyrir voninni, og er slíkt bréf venjulega nefnt lotteríseðill.

Áður en „dregið“ er, birtir lotterístjórnin skýrslu um hve mörg númer eru útgefin — í þessu frv. alt að 50 þús. — hve margir vinningarnir séu og hve háir. Númer er ekki sama sem lotteríseðill. Hverju númeri má skifta og er venjulega skift í fleiri seðla, og fer sú skifting eftir fyrirmælum reglu gerðar hvers einstaks lotterís. Venjulega er skift í 1/2, 1/4, 1/8 og jafnvel 1/16. Þessi skifting táknar það, að sá, sem kaupir t. d. 1/2 seðil eða 1/4 seðil borgar ekki fyrir seðilinn meira en 1/2 eða 1/4 af því, sem númerið kostar, en hefir á hinn bóginn heldur ekki von nema um 1/2 eða 1/4 í vinningsvon.

Úthlutun vinninganna eða dráttunum er svo háttað, að hafðir eru 2 hjólkassar, annar er númerakassi, hinn vinningakassi. Er fyrst tekinn einn seðill úr númerakassanum og jafnframt einn seðill úr vinningskassanum og segir hann til um, hver vinningurinn sé. Ef númerið er óskift, kemur allur vinningurinn í einn stað, en ef númerinu er skift í smærri parta, segja brotin til um skiftingu vinningsins. Síðan er hjólunum snúið og svo dregið úr báðum kössunum í senn, og svo áfram á sama hátt, unz allir seðlar eru þrotnir í vinningakassanum; þá er drættinum lokið. Þessi skifting seðlanna í smærri parta er gerð í því skyni, að sem flestir geti átt kost á að eignast vinningsvon, og jafnframt til þess að girða fyrir það, að menn leggi út meira en þeir treysta sér.

Lotteríin reynast alstaðar gróðastofnanir. Gróðinn fer eftir mismuninum á upphæð vinninganna og upphæð iðgjaldanna. Upphæð vinninganna er auðvitað alt af lægri en upphæð iðgjaldanna. Því meiri sem munur upphæðanna er, því meiri verður gróði lotterísins. Samkvæmt þessu frv. stendur hlutfallið milli upphæðar vinninga og upþhæðar iðgjalda í sama hlutfalli sem 70:100, og má það heita gott, samanborið við sum önnur lotterí. Í Hamborgarlotteríinu t. d. er hlutfallið 65:100, ef eg man rétt. Til eru þó lotterí, sem gera minni mun vinninga og iðgjalda en hið fyrirhugaða ísl. lotterí, t. d. danska ríkislotteríið.

Lotterí eru til í flestum löndum og eru tvennskonar, annaðhvort eign ríkisins eða seld á leigu til einstakra manna með einkarétti til seðlasölu. Í Danmörku eru til hvorutveggja þess konar lotterí. Stærsta lotteríið þar, Klasse-Lotteriet, er eign ríkisins. Kolonial-lotteríið svokallaða, er aftur í móti einstakra manna eign. Lotterí eru hvervetna háð eftirliti ríkisstjórnar. Er þar með girt fyrir óskil og óráðvendni af hálfu eigandanna. En aðalástæðan til þess að lotterí eru leyfð, er sú, að ríkið leggur lotteríunum að greiða tiltekið gjald, oft stórfé, til ríkissjóðs, annaðhvort tiltekinn hluta af tekjuafganginum, eða ákveðinn háan skatt.

Hér á landi hefir aldrei verið til lotterí, og verður líklega seint. Til þess ber einkum tvent: Þjóðin er of fátæk og fámenn til að bera lotterí, og í annan stað er ekki að vænta héðan viðskifta við útlendinga. Fjarlægð of mikil og póstsamgöngur of strjálar til þess að útlendir viðskiftamenn mundu kaupa hér seðla að nokkru ráði. Þeir eru vanir því að fá samstundis fregnir um vinningana, en þær mundu þeir ekki geta fengið héðan nema með símanum, en það yrði altof dýrt og jafnframt óáreiðanlegt. Þó er ekki því að heilsa að vér séum lausir við lotteríspilamensku. Þeir munu ekki fáir, sem „spila“ í hinum dönsku lotteríum, Klasselotteríinu, Vare- og Industri-lotterínu og Kolonial-lotteriinu, og jafnvel í lotteríum utanríkis, einkum í Hamborgarlotteríinu.

Nú fyrst er farið fram á heimild til þess að stofna íslenzkt lotterí, og þó í rauninni að eins að nafninu til. Frv. hljóðar ekki um stofnun lotterís á Íslandi, heldur fyrir Ísland. Landssjóði mundi verða að þessu mjög mikill tekjuauki, ekki minni en um 100 þús. kr. á misseri eða um 200 þús. kr. á ári, en ef vel léti miklu meiri.

Að öðru leyti getur lotteríið ekki talist vera „fyrir“ Ísland. Leyfisleitendur hugsa ekki til að selja hér nema lítið eitt af seðlum í mesta lagi 2000 seðla. Það er til þess ætlast, að stjórn lotterísins sitji í Kaupmannahöfn og að þar fari dráttur fram. Kemur það til af því, að viðskifti lotterisins verða nálega eingöngu við útlendinga, og því nauðsynlegt, að dráttstaðurinn sé greiður aðgöngu, enda getum vér ekki gefið leyfisleitendum ávísun upp á aðsetur í nokkru öðru landi en Danmörku, og þó vitanlega ekki nema því að eins, að konungur samþykki það.

Eg hefi heyrt, að sumum þætti óviðurkvæmilegt að í stjórninni ættu að sitja 3 Danir og 3 Íslendingar. Ástæðan til þess er sú, að ef Íslendingar væru fleiri í stjórninni en Danir, mundu heyrast raddir um það meðal Dana, að hagsmuna danskra lottería væri ekki nægilega vel gætt. Af sömu ástæðu er ekki í frv. bönnuð sala danskra lotteríseðla hér og hinu fyrirhugaða lotteríi ekki leyfð seðlasala í Danmörku. Frumvarpinu mundi vafalítið verða neitað um staðfestingu, ef ekki væri reynt að stýra hjá skerðingu danskra lotteríhagsmuna, og þá næðist ekki einkatilgangur vor flutningsmanna, sá að afla landssjóði tekna, fyrirhafnar og áhættulaust.

Fyrirkomulag þessa fyrirhugaða lotterís er mjög líkt því, sem er í danska Kolonial-lotteríinu: 2 „Serier“ á ári eða flokkar, eins og þetta frv. kallar það, og 6 drættir í hvorum flokki. Vinningarnir munu eftir frv. 70% af iðgjöldunum öllum samanlögðum. Iðgjaldið er 150 fr. eða 108 kr., en í Kolonial-lotteríinu mun það vera 120 kr. Einkaleyfið getur löggjafarvald vort tekið aftur endurgjaldslaust að 15 árum liðnum.

Eins og þegar er getið um, á landssjóður vísa von á 200.000 kr. árgjaldi. Hér er því ekki um lítilræði að ræða honum til handa. Hins vegar leggur hann ekki annað til en nafnið eitt og í orði kveðnu ábyrgð á því, að tryggingarsjóður lotterísins sé fyrir hendi. Í orði kveðnu segi eg, því að lotteríið má ekki taka til starfa fyr en tryggingarsjóðurinn er á takteinum og kominn í vörzlur stjórnarinnar. Ábyrgð landssjóðs er því að eins nafnið eitt. Enda er það áskilið í frv., að ef tryggingarsjóðurinn er ekki fyrir hendi, þá falli einkaleyfið niður.

Fyrir þetta á landssjóður að fá 100 þús. kr. á misseri eða 200 þús. kr. á ári, ef vel lætur eða seljist seðlarnir vel miklum mun meira, en aldrei minna en 100 þús. kr. á misseri eða 200 þús. kr. á ári, hvernig sem gengur, auk hálfra þeirra vinninga, sem ekki er vitjað í tæka tíð. Lámarksupphæð árgjaldsins, um 200.000 kr. á ári eða 400.000 kr. á fjárhagstímabili, er trygð landssjóði með því, að leyfishafar setja tryggingu fyrir því, að misserisgjaldið til landssjóðs sé greitt í réttan tíma.

Eg sé ekki betur, en að málið sé vel íhugunarvert. Býst við að hv. þd. þyki ástæða til að athuga frumv. í nefnd og vilji þá líklega vísa því til skattamálanefndarinnar, þar sem hér er um að ræða væntanlega búbót til handa landssjóði. Ekki geri eg þó till. um nefndarskipun.