07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Pétur Jónsson:

Í áliti meiri hl. nefndarinnar er þess getið, að varasamt sé að byggja á tekjum af lotteríi til frambúðar. Eg vil taka dýpra í árinni, og vona að meiri hluti nefndarinnar sé mér ekki ósamdóma í því. Eins og sjá má af frv., er ætlast til að tekjur landsins af lotteríinu verði minst 200 þús. kr á ári, en geti farið upp yfir 400 þús. kr. á ári. Þetta yrði því æði þýðingarmikil tekjugrein. En hún yrði að því leyti frábrugðin öðrum tekjugreinum á fjárlögunum, að vér hefðum ekkert vald á henni. Þótt lotteríið væri stofnað, þá gæti farið svo, að stofnendurnir legðu það niður eftir örfá ár. Vér höfum enga trygging fyrir að það haldi áfram, nema því að eins að landið sjálft geti tekið við af stofnendunum ef þeir skyldu hætta. En landið verður tæplega fært um það fyrst um sinn. Af þeirri ástæðu tel eg tekjurnar af þessu lotteríi stopular og ekki óhættulegar, nema skynsamlega sé með farið. Það er sem sé margreynt, að þegar tekjur einstaklinganna hækka, þá fer eyðsla þeirra í vöxt; menn venjast á meiri fjárbrúkun. En þegar þær minka aftur, þá er það mjög torvelt og oft tilfinnanlegt að minka eyðsluna aftur að sama skapi og hverfa í sama farið og áður. Á líkan hátt fer þegar landssjóður á í hlut. Það hlyti að verða mjög tilfinnanlegt fyrir landssjóð, ef lotteríið yrði lagt niður eftir t. d. 6—8 ár, þegar hann væri búinn að venja sig við að hafa ca. 200—400 þús. kr. árlegar tekjur í viðbót við það, sem hann hefir nú, því þá væri búið að færa upp árleg útgjöld landssjóðs sem þessu nemur, og ársþörf hans til tekna væfi að sama skapi orðin hærri. Við höfum dæmið fyrir okkur þar sem vínfangatollurinn er; við getum ekki mist þær tekjur sem við höfum haft af honum, en hefir ekki enn tekist að finna nýjar leiðir. En þó nú að lotterítekjurnar gætu orðið okkur til ills ef þeim væri bara kastað í svanginn á landssjóði eins og öðrum tollum og sköttum, þá má þó finna vegi til að verja þeim þannig, að svo verði ekki. Það má ráðstafa þessum tekjum sérstaklega með lögum. T. d. mætti leggja talsverðan hluta þeirra í sjóði, eða til að styrkja opinberar stofnanir, sem standa á völtum fæti. Eg get hugsað mér að leggja mætti nokkurn hluta teknanna árlega í byggingarsjóðinn. Tekjur sjóðsins hafa orðið litlar, því sala á Arnarhólslóð hefir lítil orðið enn, en hins vegar hefir sjóðurinn brúkað mikið fé og því orðið að taka lán úr viðlagasjóði. Væri fé lagt í byggingarsjóð, þá mundi það leysa bundið viðlagasjóðsfé.

Sömuleiðis gæti komið til orða að verja hluta af þessum tekjum til verðbréfakaupa til tryggingar Landsbankanum og veðdeildum hans. Talsvert fé bankans hefir verið tekið úr veltu og bundið fast í þessu skyni, og sömuleiðis hefir fé landssjóðs verið bundið til að standa bak við veðdeildirnar. Vöxtum af þessum verðbréfum mætti verja til einhvers annars en hagsmuna bankans, t. d. heilsuhælisins, til að hjálpa fátækum sjúklingum til að vera á hælinu.

Eg vildi benda hv. deild á þetta, þó eg komi ekki með tillögu þessa efnis nú. Þótt lotteríið komist á, þá verður nægur tími síðar meir til að gera slíkar ráðstafanir, en eg vildi ekki að málið gengi í gegn nú án þess að þessu væri hreyft, svo að þessi hugsunfylgdi því. —