07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Valtýr Guðmundsson:

Það er von að skiftar séu skoðanir um þetta mál. Það var rétt sem háttv. framsm. minni hlutans (B. J.) tók fram, að það er ágreiningur um það í heiminum, hvort rétt sé að ala þá fýsn manna, að verða ríkir á skömmum tíma og með lítilli fyrirhöfn. En þar sem hann tók fram, að hér væri um einokun að ræða, þá er það ekki alls kostar rétt. Það er ekki svo að skilja, að með þessum lögum sé bannað, að hafa annað lotterí, eða happdrætti eins og hann nefnir það, en þetta eitt. Það er einungis bannað að hafa annað peningalotterí. Í Danmörku eru mörg lotterí auk Kolonial- og Klasselotterisins — þau tvö hafa þar einkaleyfi — en það eru ekki peningalotterí. Þar eru: „Landbrugslotteriet“- „Vare- og Industri-lotteriet“, „Vaaben, brödrelotteriet“ o. s. frv.

Þar sem háttv. frams.m. minni hlutans (B. J.) tók fram, að það væri ósamboðið Íslendingum að setja þetta lotterí á stofn, vil eg benda honum á, að eftir nefndaráliti hans sjálfs eru peningalotterí í þessum ríkjum: Þýzkalandi, Ungverjalandi, Austurríki, Ítalíu, Hollandi, Spáni, Danmörku og Serbíu. Og ef þetta hefir sett svartan blett á allar þessar þjóðir, er ólíklegt að hann sé svo svartur að við getum ekki þolað hann. Við þurfum ekki að setja okkur of hátt. Þá vildi hann ekki að einkaleyfið hljóðaði upp á nafn. Það getur verið dálítið til í því. En þó held eg að það sé meiri trygging að binda leyfið við nöfn þessara heiðursmanna heldur en að veita það alveg út í loftið. Ef þessir menn geta ekki, einhverra hluta vegna, komið lotteríinu á stofn, er eg þó ekki beinlínis á móti því að stjórninni verði heimilað að veita öðrum mönnum leyfi til þess. Og ef háttv. framsögum. minni hlutans vill koma með br.till. í þá átt skal eg ekki vera á móti henni. Þar sem hann fer fram á í 5. br.till. sinni að happdrættir skuli eigi vera færri en 30.000 af 50.000 hlutum, þá er það gersamlega óaðgengilegt fyrir leyfisbeiðendur. Auk þess, er því meiri tekjuvon fyrir landssjóðinn af þessari stofnun, því stærri sem vinningarnir eru, því að ef þeir eru margir og um leið smáir, eru mikil líkindi til að það fæli menn frá lotteríinu. Að minsta kosti er það svo í Danmörku, þar sækjast menn meira eftir að spila í Klasselotteríinu, þar sem vinningarnir eru færri en hærri, heldur en í Koloniallotteríinu, þar sem hæsti vinningurinn getur varla komið fyrir, en vinningarnir hins vegar svo margir, að nálega annarhver maður vinnur.

Þá vill hann ekki að Ísland bjóði betri kjör en önnur ríki. Það er satt, hér eru betri kjör boðin. En þess ber að gæta að leyfishafarnir hafa hér um bil enga sölu í landinu sem leyfið gefur, en verða að útvega nýjan markað erlendis þar sem önnur lotterí eru fyrir. Þess vegna er nauðsynlegt, þegar svona stendur á, að bjóða betri kjör en annarsstaðar eru boðin.

Ein athugasemd háttv. framsm. minni hlutans gladdi mig mjög. Hann fer svo vægt í sakirnar, að hann vill stytta einkaleyfistímann um ein 5 ár, og það til þess að eyðileggja ekki málið fyrir nefndinni. Mótstaða hans er því ekki sterkari en svo að hann sættir sig við, að málið fái framgang með þessari brt. Og það væri engin frágangssök að ganga að henni. Því að í sjálfu sér er þetta ákvæði ósköp þýðingarlítið, þar sem ráðherrann hefir heimild til að taka leyfið aftur, er lotteríið hefir verið rekið í 15 ár. Með því er fyrirbygt að lotteríið geti gert nokkurn skaða.

Þá þótti honum undarlegt að það skuli fyrirboðið að selja hluti í Danmörku. En eg þekki ekki til að það sé leyfilegt að selja danska seðla hér. Eg held að það sé óleyfilegt, að minsta kosti er óleyfilegt, að hafa hér Kollektion. Reyndar verður það ekki fyrirbygt að hlutirnir gangi kaupum og sölum manna á meðal. Það er t. d. óleyfilegt að selja danska seðla í Svíþjóð, en þrátt fyrir það selst feikimikið af þeim þar. Það er nauðsynlegt að banna að selja hluti frá þessu lotteríi í Danmörku, eða sem mætti orða heppilegar, t. d. banna að bjóða þá opinberlega til sölu, vegna danskra laga sem áskilja Kolonial- og Klasse-lotteríinu einkarétt í landinu. Að öðrum kosti mundu þessi lög koma í bága við dönsk lög og gætu því ekki fengið staðfestingu. (Bjarni Jónsson: Má ekki þegja um það). Nei, þetta nær að nokkru leyti til ríkisins sem Ísland er hluti af. (Bjarni Jónsson: Er Ísland það?). Já, að minsta kosti eftir þeirra vitund. Annars held eg, að eg þurfi ekki að eyða fleiri orð. um að þessum mótbárum háttv. framsögum. minni hlutans, og býst við að háttv. framsögum. meiri hlutans (L. H. B.) taki hann til bæna.