07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Bjarni Jónsson:

Eg veit varla, hvort betri er brúnn eða rauður, en held eg verði þó að byrja á hv. framsögum meiri hl. (L. H. B.).

Hann sagði að erfitt væri að rökræða við mig. Hann er maður rökfimur, og sýna þessi orð hans því, að hann hefir illan málstað að verja.

Hann sagði að hjá mér gætti mest tilfinninganna.. Það er illa til fundið í þetta sinn að bregða mönnum um bráðar tilfinningar í þessu máli, því að hér er um sóma landsins að tefla. Og er ilt að atyrða þá menn, sem ekki þykir landinu tækur sá fjárafli, er því er ósæmilegur. Hér er ekki á öðru að byggja en tilfinningunni í þessu sambandi. Eg hefi sýnt fram á það í nefndaráliti mínu, að mín tilfinning hér er í samræmi við skoðun þeirra manna, sem hæst og bezt standa siðferðislega.

Sami hv. þm. átaldi mig fyrir málvillur og spurði, hvar Hetverjar væri. Honum hefði mátt vera kunnugt, að t í innhljóði í íslenzku svarar til ss í þýzku, og hefði hann átt að hugsa til þess er hann át, að eta er sama sem essen, og Hetverjar þá sama sem Hessenbyggjar. Hv. þm. mun vanur að beita fremur svipu en rökum, og hjá honum kennir nokkurrar leti, er hann nennir ekki að eyða útlendum slettum í máli voru.

Hann bar mér það, að eg væri óheppinn í nýyrðum; eg skal ekki um það þrátta, en flestir, sem vit hafa á, segja öfugt.

Sami háttv. þm. fór út í einokun í sambandi við þetta. Hér kennir ósamkvæmni hjá honum, er hann vill leyfa einokun í þessu en ekki í öðru. Mín skoðun hefir jafnan verið sú, að landið mætti sjálft annast verzlun í landinu ef nauðsyn krefði, en aldrei leigja verzlunina og þá ekki heldur leyfa mönnum að selja þessa vörutegund í landsins nafni.

Hann fann enn að því, að eg væri að citera í stöðulögin. (Valtýr Guðmundsson: Er það íslenzka að citera. (Lárus H. Bjarnason: Eg hefi ekki nefnt „stöðulögin“ á nafn). Þetta hefi eg eftir honum sjálfum og öðrum hans félögum. Eg tel mer ekki skylt að þýða ræður þeirra, og er þeirra að veita áheyrendum orðabætur. Hann vitnar í stöðulögin og er mér samdóma um það, að þau bindi oss ekki, heldur að eins Dani.

Hann sagði, að eg hefði verið með sögur úr nefnd. Eg bið fyrirgefningar, ef mér hefir missagst. En.eg sagði satt, og situr ekki á honum að víta, þar sem hann sjálfur fór með sögur, þótt hann kunni ef til vill að segja, að óvandaðri sé eftirleikurinn. (Lárus H. Bjarnason: Eg hafði leyfi til þess frá nefndinni og saga mín var að eins leiðrétting á sögu hv. þm.). Hv. þm. hefir ekki haft tækifæri til að tala um það við nefndina.

Eg hefi ekki minst á það við leyfisbeiðendur þessa, hvort þeir vilji ganga að því að greiða 10 af hundraði, en mér er kunnugt um það, að ekki er minna á lagt í öðrum löndum.

Ég hefi ekki sagt, að Ísland gæti ekki haft happdrætti annarsstaðar, en eg tel ekki sómasamlegt Íslendingum að hafa slíka stofnun annarsstaðar en í Reykjavík og að eftirlit sé hér. Allur heimur mundi lita svo á, að hér væri um nýlendustofnun að ræða og mundi mjög rýrna virðing vor í augum erlendra þjóða. Andans göfgi er ekki skiftandi fyrir aura gnægð.

Hv. framsögnm (L. H. B.) þótti undarlegt, að eg vil setja „utan Íslands“ fyrir „utan ríkis“. „Utan ríkis“ þýðir ekki annað að réttum lögum en utan Íslands.

Þá er eg hræddur um að bræðingsmenn mundu telja það þýða: „utan danska ríkisins“ og láta eigi ónotað það tækifæri til að játa land sitt undirlægju. Og fyrir því vil eg breyta.

Þá vík eg að háskólakennara þeim úr Danmörku, sem hér situr. Það er sýnt, að honum er danskan munntömust; ugglaust 50 sinnum tók hann sér í munn skrípiyrðið lotterí. Hann sagði enn, að oss væri ekki vandaðra um að taka upp slíka stofnun en ýmsum löndum, sem eg nefndi í nefndaráliti mínu. En hann hefir ekki gætt þess, að eg tók líka fram, að merkustu menn og vitrustu á þessi efni eru einróma andvígir þessari stefnu. Stofnanir þessar eru víðast afargamlar og ekki unt að kveða þær niður. En hvað sem því líður, geta Íslendingar haft sína skoðun fyrir sig; þeim væri helzt ætlandi að sjá sóma sinn og ættu ekki stöðugt að hanga aftan í öðrum þjóðum.

Hann lagði á móti því, að leyfið væri veitt án nafns, en þar hygg eg að réttast sé að treysta stjórninni til að sjá um að velja aðra jafngóða, þótt nöfn sé ekki nefnd.

Sami háttv. þingm. lagði enn á móti því að sett væri 30 þús. vinningar af 50 þús. seðlum, og hélt að þetta ákvæði væri til skaða og drægi úr ginningunum; en svo er ekki, stóru ginningarnar standa fyrir því, og er það öfugt, því að með þessu verður fyrirtækið aðgengilegra.

Hann brá mér um ósanngimi, og er það ómaklegt; mínar tillögur eru sanngjarnar og þær vægustu, sem vér getum lotið að Íslendingar.

Þá mintust þeir á, að vér yrðum að gæta hagsmuna Dana. Hverju skifta oss þeir. Eg skil ekki annað en að þeir geti verndað sig sjálfir; oss ferst ekki að banna að selt sé hjá þeim, enda hafa þeir þegar sett lög um það sjálfir.