07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Framsögum. minni hlutans (Bjarni Jónsson):

Þar sem hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, að eg hefði misskilið hann, þá er það ekki rétt. Þau orð, er hann hafði yfir, sagði eg ekki eftir honum, heldur frá mínu eigin brjósti. Og eg endurtek það ennþá einu sinni, að aðrir féglæfrar og fjárhættuspil tíðkast engu síður í þeim löndum, þar sem happdrætti er leyft. En það er rétt — hv. 2. þingm. S.-Múl. sagði þetta ekki — hann varaðist að nefna það, sem von var.

Þá talaði hv. þingm. mikið um ástæður mannanna og sagði sögu um barneignir í Indíánabæ, sem eg ætla mér eigi að barna fyrir honum. Háttv. þm. hefir gaman af því að segja sögur, einkum af sjálfum sér — hann hefir sagt þær fleiri hér í deildinni, t. d. söguna um bola, sem var farið með á markað o. s. frv., en eg get bara ekki séð, hvað slíkt kemur við leyfisumsókn til þess að stofna happdrætti.

Út af orðum hv. þm. um það, að rétt sé í lögunum að tala um að metrakerfið, sem hann svo nefnir, skuli notað að því er snertir rúmmál og þyngd, þá þarf eg ekki að vera langorður um það. Því að það er hverjum manni ljóst, að ekki er hægt að mæla þyngd með lengd. Og þótt ákveðið rúmmál af vatni sé lagt til grundvallar til þess að tákna þyngdina, þá er það vatnið, sem er aðalatriðið. Ef svo væri ekki, þá mætti eins setja gull eða blý í staðinn. Hv. þm. hefir því engan veginn bjargað sinni sök með þessu. Annars er það hvort-tveggja rangt að tala um metrakerfi og stikukerfi — heldur á að nefna það tugakerfi. Margföldun og deiling með 10 er það eina, sem er sameiginlegt fyrir táknin á lengd, rúmmáli og þyngd.

Þá þarf eg að svara formanni nefndarinnar, hv. 2. þm. Rang. (E. P.) nokkrum orðum. Það var alls óþarft af honum að fara að halda langa ræðu út af því sem við hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) höfðum áður talað um í mesta bróðerni og komið okkur saman um. (Lárus H. Bjarnason: Það var nauðsynlegt, því að hv. þm. Dal. hafði skýrt rangt frá). 1. þm. Rvk. (L. H. B.) hafði skýrt rétt frá einu atriði, nefnil. því, að eg hefði tekið kurteislega í hendina á leyflsleitendum. Hitt voru tómar missagnir hjá honum. Eg hefi aldrei brugðið mönnunum um, að þeir hafi ekki svarað spurningum þeim, sem fyrir þá voru lagðar. Eins og eg hefi áður tekið fram, þá met eg þessa menn, minsta kosti þá tvo, sem eg þekki, mikils, og það væri fjarri mér að fara að bregða þeim um ókurteisi. Hitt er annað mál, að annar en eg tók strax aðalforustuna og lagði fram spurningar, svo að aðrir komust ekki að — sízt þeir, sem ekki liggur hátt rómur.

Eg get ekki verið sammála hv. 2. þm. Rang. (E. P.) um það, að hér beri ekki að tala um hvað sómasamlegt sé landinu. Eg hygg að fáar samkundur ættu að láta sér annara um sóma landsins en einmitt þessi.

Það var að eins eitt atriði í ræðu hv. þm., sem rétt var, nefl. það, að umræðurnar mundu ekki snúa mikið hugum manna. Eg veit að hér er meiri hluti á þingi, sem ætlar að keyra þetta mál fram, og er ekki kominn hingað til að sannfærast. Það er ósköp algengt, en eg get ekki betur gert en látið þeim rök í té, sem ættu að geta sannfært þá.

Að svo mæltu skal eg ekki fara frekari orðum um málið, að sinni.