09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Ráðherrann (H. H.):

Eg stend upp að eins til að lýsa ánægju minni yfir því, hvað þetta mál er vel á veg komið, og eiga hinir ötulu formælendur þess og skattanefndin þakkir skilið fyrir fordómleysið, sem lýsir sér í alúð þeirra við þetta einkaleyfismál. Með þessum hætti nást dágóðar tekjur í landssjóð án þess að leggja nokkurn skatt á almenning, fæst þannig, að því leyti til, með þessu frv. það sama, sem vakti fyrir Alþingi í fyrra og milliþinganefndinni síðastliðinn vetur með einkasölu á kolum og steinolíu, þó að það bresti þá miklu kosti sem hin frv. höfðu í því, að tryggja almenningi betri kaup og fastara og óhvikulla verð en hingað til á mikilvægum nauðsynjum.

Mótbárurnar sem komið hafa fram móti þessu frv. eiga í því alveg sammerkt við mótbárurnar á móti einkasölufrumvörpum milliþinganefndarinnar, að þær virðast koma meira frá einhverju öðru líffæri heldur en höfðinu, vera bygðar meira á einhverjum tilfinningum heldur en á skynsamlegri hugsun. Það hefir verið talað með miklum móði um það, að þetta frv. væri landinu til ósóma, að það væri leppmenska fyrir útlendinga og hitt og þetta ljótt og óholt við það, alveg á sama hátt og fimbulfamlað var um, það, að einkasalan væri landinu ósamboðin, gæfi útlendum mönnum hagsmuni, kæmi í bága við sögulega reynslu, skoðanir Skúla sál. fógeta o. s. frv.

Eg legg þessar mótbárur alveg að jöfnu, og gleður það mig að sjá að hin hv. þingd. hefir yfirleitt tekið mótbárunum eins og þær eiga skilið, og tekið kjarnan fram yfir hismið.