09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Eg get vel skilið að hv. framsögum. meiri hlutans (L. H. B.) hliðri sér við að svara mér, því hann hefir engin rök fram að bera fyrir sínu máli.

Eg undrast undirtektir hæstv. ráðh. undir þetta mál, og eg er honum ekki þakklátur fyrir þær.

Það er auðvitað rétt, að þessar fáu krónur, sem þeir ætla að græða á þessari fjárdráttarstofnun, verða ekki borgaðar úr landssjóði, en þær koma þó úr vasa þjóðarinnar, einkanlega þegar þeir hafa ekki manndóm í sér til að banna hér sölu á seðlum annara happdrætta.

Þar sem hæstvirtur ráðherra sagði að talaði af tilfinningu í þessu máli en hann með höfðinu, þá eru það að eins hans orð. Þeir menn sem eg hefi vitnað í, tala ekki um þetta af tilfinningu nema þeirri, sem verður að vera þegar um sóma er að ræða. Og það er svo sem auðvitað að eg tala af sómatilfinningu, þegar eg vil halda uppi vörn fyrir sóma míns lands. Það vill nú svo vel til að sú tilfinning, sem hér þarf að vitna í, sómatilfinningin, er rík hjá íslenzkum mönnum og þeir fyrirlíta alla leppmensku. Þarf ekki að leiða nein rök að þessu.

Eg skal láta mér nægja þessa almennu athugasemd til svars. Mér komu mjög á óvart þessar undirtektir af stjórnarinnar hendi.

Þetta eru vissulega of dýrir peningar ef menn ætla að leggja sóma landsins í hættu fyrir þá.