29.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

52. mál, Grundarkirkja

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Eins og hv. þm. mun kunnugt fluttum við þm. Eyf. á síðasta þingi sams konar tillögu við fjárlögin og þetta frv. fer fram á, er nú liggur fyrir. Sú till. fékk þá góðan byr hér í deildinni, en var feld í hv. efri deild. Það sem frv. leggur til, er að prestmatan, sem er 2 hundruð á landsvísu og borguð er til prestanna til Grundarþinga og Akureyrar, leggist til viðhalds kirkjunni á Grund í Eyjafirði, þangað til sú sóknarskipun er komin á í héraðinu, að árlegar auknar tekjur kirkjunnar frá því sem er frá sóknarmönnum, nemi jafnhárri upphæð og prestsmatan. Þessari tillögu var andmælt að eins af einum háttv. Nd.-þingmanni á síðasta þingi, öðrum þingmanni S.-Múl., en framsögumaður fjárlaganefndarinnar lýsti yfir því, fyrir nefndarinnar hönd, að hún vœri tillögunni samþykk, með sérstöku tilliti til þess, að eigandi kirkjunnar, Magnús Sigurðsson, hefir bygt hana af grunni af eigin efnum, svo að hún er ein hin vandaðasta kirkja á landinu, og þetta því að skoða sem viðurkenning fyrir framtakssemi hans.

Þessi kirkja er reist fyrir 7 árum og var þá hin gamla kirkja orðin svo hrörleg, að við slíkt var ekki unandi, en sjóður kirkjunnar þá ekki nema 1.990 kr. Kirkjueigandi áleit engan vafa á, að þess mundi eigi langt að bíða, að sameinaðar yrðu kirkjusóknir í Eyjafirði og kirkjum þar af leiðandi fækkað. Á þessu svæði, sem hér er um að ræða eru nú 7 kirkjur og væri það harla óeðlilegt, ef einn prestur ætti eftir sameiningu beggja prestakallanna að þjóna þeim öllum. Kirkjumálanefndin áleit og, er hún sat á rökstólum, að rétt væri að fækka þessum kirkjum svo að þær yrðu að eins 3, og mundi þá að sjálfsögðu langmest bætast við Grundarsókn. Sennilega er breytinga í þessa átt ekki lengi að bíða — og munu þá auknar tekjur kirkjunnar frá sóknarmönnum nema eins mikilli upphæð og prestsmatan, svo að hér er ekki að ræða um langt tímabil, eftir því sem mér sýnist málið liggja fyrir. Með kirkjubyggingunni er það því eiginlega gert mögulegt, að sóknasameiningin geti átt sér stað, án tilfinnanlegs kostnaðar, annaðhvort fyrir söfnuðinn eða hið opinbera.

Málið hefir verið borið undir prófast og biskup og hafa þeir báðir verið því eindregið meðmæltir. Skal eg með leyfi hæstv. forseta lesa upp bréf biskups, um málið, til okkar þm. Eyfirðinga.

Það hljóðar svo:

„Mér barst í dag frá prófasti í Eyjafjarðarprófastsdæmi erindi frá eiganda Grundarkirkju, Magnúsi óðalsbónda Sigurðssyni á Grund, þar sem hann fer fram á, að prestsmatan, 2 hndr. á landsvísu, sem hann greiðir presti í Grundarþingum að 2/8 og Akureyrarpresti að 1/3, megi framvegis ganga til Grundarkirkju, en prestunum bætist aftur úr prestslaunasjóði. Er beiðni þessari snúið til Alþingis, sem nú er saman komið, en henni ráðstafað til prófasts og biskups til meðmæla.

Prófastur hefir mælt hið bezta með beiðninni, fyrir þá sök, hve Magnús hefir mikið lagt til kirkju sinnar og hvergi er neitt berandi saman við það um land alt, fyr né síðar.

Í samráði við Magnús, í símtali, í dag, beini eg málinu til háttvirtra þingmanna Eyjafjarðarsýslu til flutn- og beztu fyrirgreiðslu. Eg býst eigi við því, að fjárveitingarvaldið vilji fella niður prestsmötuna að fullu, en lítil viðurkenning væri það, og harla makleg, að prestsmatan mætti nú í bili, meðan Grundarsókn er eigi stækkuð við sóknasameiningar, ganga til viðhalds hinni einkar veglegu kirkju. Stendur þannig svo alveg sérstaklega á, að ekki mundi það vera neitt viðsjált fordæmi. Skilst mér að slíkri veiting mætti að koma með athugasemd við fjárveitinguna til Prestslaunasjóðs.

Hugsun Magnúsar bónda mun hafa verið sú, að allur fjörðurinn fram, ætti kirkjusókn að Grund, og nógu er kirkjan stór til þess. En eg tel nú samt líklegt að í hinu sameinaða Grundarþinga-prestakalli — Grundarþingum fornu og Saurbæ — verði 3 kirkjur, í stað 7 nú, og mun þá langmest bætast við Grundarsókn.

Lengi getur þeirra breytinga eigi orðið að bíða, eins og á stendur, kirkjusameiningin óumflýjanleg þegar prestaköllin sameinast. Þetta framlag í viðurkenningarskyni við kirkjueigandann, stæði því aldrei nema örfá ár.

Þegar Grundarkirkja ætti þrefalt fleiri gjaldendur en nú, væri einhver vegur til að halda henni við, og vátrygðri, o. s. frv., en ekki minsta viðlit til viðhaldsins, og um endurgreiðslu hinnar afarmiklu skuldar væri ekki að tala, með þeim tekjum, sem kirkjan nú hefir, svo sem frá er skýrt í beiðninni.

Sendi eg hv. þingmönnum Eyjafjarðarsýslu nefnt bréf Magnúsar með þeim ummælum og meðmælum.

Af þessu má sjá undirtektir biskups, sem eg vona að hv. deild taki til greina. Tekjumissirinn, sem leiðir af þessu frv., fyrir prestana til Grundarþinga og Akureyrar er ætlast til að bætist þeim úr prestlaunasjóði. Eg sé svo ekki að þörf sé á að tala lengra mál fyrir þessu frv. Að eins skal eg geta þess, að það hafa gleymst eða fallið úr í prentsmiðjunni, aftan við 3. gr. frumvarpsins þessi orð: „Auk þeirra tekna, er nú eru“. Þessi fáu orð ættu að geta komist inn í frv. við 2. umr. Nefndarsetning álít eg ónauðsynlega, en vildi óska að málinu yrði vísað til 2. umr. og vona að því verði tekið eins vel hér í deildinni og á síðasta þingi.

Mér finnst það í alla staði eðlilegt og jafnvel sjálfsagt af þinginu að meta að verðleikum við kirkjueigandann, hinn frábæra dugnað hans og stóru fjárframlög — þar sem hann gekk að því sem vísu, að hann fengi það fé, sem hann lagði fram til kirkjubyggingarinnar, aldrei endurgoldið.

Tekjur kirkjunnar gera ekki betur, þó frumvarpið verði samþykt, en hrökkva fyrir viðhaldi kirkjunnar, en borgar að líkindum ekki nema af höfuðstólnum til núverandi kirkjueiganda, jafnvel þótt sóknasameining eigi sér stað, enda er það ekki það, sem fram á er farið, hvorki með frumvarpinu, eða af Magnúsi á Grund.

Þingið þarf heldur ekki að óttast það, að þetta frv. skapi hættulegt fordæmi, því að það er harla ósennilegt að margir verði til þess að leggja annað eins fram og þessi maður hefir gert, og þó svo væri, þá teldi eg það, síður en svo, skaða fyrir hið opinbera heldur mjög mikið happ, ætti slíkt tilfelli sér stað sem þetta.