29.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

52. mál, Grundarkirkja

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er ekki skemtilegt að tala fyrir tómum bekkjum. Annaðhvort er að hv. 1. þm.. Eyf. (St. St.) hefir verið svo mælskur að tala þá tóma, eða það er eitthvert sérstakt aðdráttarafl í Ed., sem dregur þingmenn þangað. En þar sem forseti hefir ekki frestað fundi og eg hefi beðið um orðið, þá skal eg taka það fram, að eg er því algerlega mótfallinn, að landssjóður fari að leggja á sig enn þyngri gjöld til kirkna en lögboðin eru. Einkum nú, þegar sýnt er, að fjöldi manna óskar eftir aðskilnaði ríkis og kirkju, virðist það nokkuð undarlegt og harla óheppilegt að vera að reyra kirkjuna fastari böndum við landssjóð. Mér virðist líka háttv. flutningsm. (St. St.) fara dálitla krókaleið í þessu máli. Það er eins og þeir ætli að dylja menn þess eða klóra yfir það, að það er á landssjóði, sem þessi auknu útgjöld lenda. Hvaðan á að taka féð til uppbótar prestunum í Grundarþingum og Akureyri? Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) segir að það eigi að taka úr prestlaunasjóði — af lögboðnum útgjöldum landsins til kirkjunnar. En hver fyllir prestlaunasjóð, og hvaðan á að taka féð er hann þrýtur — og hann þrýtur ávalt? Auðvitað úr landssjóði. Það mætti því alveg eins fara hér hreint að verki og sækja um styrk úr landssjóði.

Þótt eg efist als ekki um, og viti með vissu, að þessi maður, sem farið er fram á að fé sé veitt til, sé mesti sæmdarmaður og alls góðs maklegur, þá sé eg ekki að það komi svo mikið landssjóði við. Hann hefir ekki bygt kirkjuna fyrir landssjóð. Hann er sjálfur eigandi hennar. Og hafi hann kastað út fé til fyrirtækis, sem ekki rentar sig, þá er það hans eigin sök.

Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) gat þess, að þó að þetta fé yrði veitt nú, þá mundi það als ekki hrökkva til að borga vexti eða afborganir af láninu til kirkjubyggingarinnar. Eg vil biðja hv. þm. að taka eftir hvað í þessu liggur. Það þýðir það, að þegar kirkjan er komin að falli — hún er reist úr timbri — þá verður landssjóður bæði beðinn um nýja kirkju og einnig farið fram á það, að hann hlaupi undir bagga með afborganir af láninu. Hér mundi því leggjast stór byrði á landssjóð, ef vér sköpuðum þannig lagað fordœmi með því að samþykkja þetta frv., án þess að hugsa um afleiðingarnar. Svo er og þess að gæta að þessi maður hefir líka að nokkru fengið endurborgað þetta verk sitt, sem hann hefir gert óbeðinn. Hann er efnamaður; hann hefir fengið almenningslof um alt land og í öllum blöðum; hefir verið krossaður o. s. frv.; það er líka talsverð viðurkenning. Eg vildi, eins og eg hefi tekið fram, óska þess, að málið gangi alls ekki til 2. umr., en verði felt þegar í stað.