31.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

52. mál, Grundarkirkja

Jón Magnússon:

Eg verð nú að taka í líkan streng og hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hefir áður gert. Eg hefi ekki heyrt ástæður fyrir því, hvers vegna landsstjórnin ætti að fara að gefa kirkjubóndanum á Grund peninga, og það er ekkert annað en þetta, sem hér er farið fram á. Þetta er ítak sem landið á í Grund, og sem bóndinn þar gæti leyst sig frá, hvenær sem vildi, fyrir svo sem 3 þús. kr., eða vel það. Eg veit það vel, að maðurinn, sem hér á í hlut, er margs góðs maklegur. Hann hefir gert þessa kirkju mikla og glæsilega, bæði af því að hann munaði ekki mikið um það, hann er ríkur maður, og svo hefir hann ef til vill, eins og fleiri slíkir menn sumpart viljað gefa þetta fyrir sálu sinni, og mér finst vafamál hvort þingið spillir ekki fyrir þeim tilgangi hans með því, að samþ. þetta frv., og láta hann þannig taka út laun sín hérna megin.

Eins og eg var á móti afnámi Péturs- og Maríulamba, eins verð eg að vera á móti þessu frv., því að það er alveg samskonar viðhaldsskylda, sem hér er farið fram á að losa þá við, sem hún hvílir á.