31.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

52. mál, Grundarkirkja

Pétur Jónsson:

Eg er með þessu frv., en ekki af því, að eg áliti rétt að gefa nokkuð eftir af eignum landssjóðs. Eg var á móti afnámi Péturs- og Maríulamba, en hér er ekki um neina slíka eftirgjöf að ræða, heldur að eins um það, að veita Grundarkirkju þennan styrk um nokkurra ára bil. Það hefir verið tekið fram, hvað vakti fyrir Magnúsi á Grund, þegar hann bygði þessa kirkju Það var ekki aðalatriðið að hann vildi gefa fyrir sálu sinni, og sýna þá rausn, sem honum er títt; hann vildi sameina fólkið í þessu fjölmenna bygðarlagi, en ekki að það væri á dreif hingað og þangað í smáum kirkjusóknum. Hann vildi vekja það til meira andlegs samlífs, meira kirkjulífs, auðvitað en einnig til annars andlegs lífs. Þetta veit eg, og eg hefi heyrt á honum að hann var ekki viss um, hvort þetta væri nóg, að byggja eina kirkju, því að ýmsir eru fastheldnir við gömlu kirkjurnar, þótt að því komi um síðir, að þær verði lagðar niður. Hann hefir því, til þess að fullkomna verk sitt enn þá betur, ráðist í að byggja samkomu- og skólahús.

Eg hefi nú sagt frá því, hvað þessi maður hefir lagt í sölurnar fyrir hugsjón sína, og sé eg ekki betur, en að hér sé lítið í húfi, þótt þetta nái fram að ganga. Talað hefir verið um, að þetta mundi draga þá dilka á eftir sér, að fleiri mundu fá svona þóknun eftir á; menn t. d. eins og Ásgeir heitinn á Þingeyrum, ættu eigi síður skilið að fá viðurkenningu. En eg verð að segja að eg vildi helzt hafa sem flesta slíka dilka, helst sem flesta sæmdarmenn, sem ekki horfa í að verja fé sínu til góðra hugsjóna og almenningsnota.