31.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

52. mál, Grundarkirkja

Benedikt Sveinsson:

Mér þykir undarlegt að heyra svo margar raddir um það, að veita eigi mönnum verðlaun fyrir að reisa stórar kirkjur. Eg veit ekki betur en að þingið hafi síðustu árin hallast að fríkirkjuhugmyndinni, og kemur það þá kynlega við ef þingið á að fara að verðlauna menn fyrir kirkjusmíð. Finst mér og, að margt liggi nær, heldur en að Alþingi sé að ala upp í mönnum þessa leiðu ástríðu að reisa sem stærstar kirkjur, sem virðist fara í vöxt seinni árin og er að verða þjóðplága. Þess hafa verið dæmi, að hrapað hefir verið að því, að reisa stór kirkjubákn í fátækum sveitum og sjó þorpum, og hafa sum aldrei orðið full ger, heldur hafa hrófin staðið hálf gerð, varla „fokheld“, og aldrei verið lokið við smiðina. Stormurinn hefir orðið fyrri að feykja þeim af grundvelli. — Þingið ætti sízt að ala á því, að menn sýni dugnað sinn í því, að austroka svo fé sínu. Enda er margt annað þarfara, sem verja mætti fé til, almenningi til heilla, svo sem sjúkraskýli og skólar. (Pétur Jónsson: Já og þessi maður hefir líka reist skóla) Já og fyrir það ætti hann fremur verðlaun skilið. Hvers vegna er ekki fremur farið fram á það? Hitt álít eg, að ekki þurfi verðlauna við.