23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

60. mál, vatnsveita í verslunarstöðum

Flutningsm (Stefán Stefánsson):

Eins og háttv. þingdeildarmenn muna, var þetta mál borið fram hér í deildinni af okkur þingmönnum Eyfirðinga. Því var tekið vel og gekk nefndarlaust í gegn um deildina. Í Ed. var sett nefnd í málið, og hefir henni litist að gera á því nokkrar breytingar, sem eg verð að álíta að miði til bóta, og eru helztu breytingarnar þessar:

Í fyrsta lagi er í 3. gr. gefin heimild til vatnstöku í landeignum einstakra hreppsbúa. Ákvæði um þetta vantaði í frv. eins og það fór frá neðri deild, og tel eg þessa viðbót nauðsynlega, því að það hefði getað komið sér illa, ef einstakir menn hefðu getað hamlað því að vatnsveita kæmist á.

Önnur breytingin er fólgin í því, að ákveðið er að upphæð skattgjalds megi ekki fara fram úr 5°/00 af húsaskattsvirðingu húseigna yfirleitt í kauptúni hverju, og á einstökum húseignum má skatturinn ekki nema meiru en 6°/00 af virðingarverði. Þessa breytingu tel eg og til bóta.

Þriðja breytingin er sú, að hver einstakur húseigandi er ekki skyldur að greiða vatnsskatt, fyr en vatnsleiðsla er komin að húsi hans.

Þessar þrjár breytingar verð eg að telja til bóta á frv., og leyfi eg mér að mæla eindregið með því að hv. deild samþykki það eins og það er komið frá hv. efri deild. Eg hefi áður tekið fram ástæðurnar fyrir því, að frv. er komið fram, og hvað er við það unnið, að ekki sé nauðsynlegt að bera slík mál undir þingið í hverju einstöku tilfelli. Breytingar þessar eru aðallega sniðnar eftir vatnsveitulögum Reykjavíkur, sem eru mjög nákvæmlega athuguð og vel úr garði gerð.

Eg hefi svo ekki fleira um þetta mál að segja, en vil að eins endurtaka þá ósk mína, að frv. verði samþykt eins og það nú liggur fyrir.