05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

62. mál, skipting læknishéraðs

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Af því að eg er einn í þeirri nefnd, sem ætlast er til að máli þessu verði vísað til, hefir mér hugkvæmst að beina einni fyrirspurn til til hæstv. ráðherra (H. H.) og vona eg svo góðs af honum, að hann svari, ef hann má vera að taka eftir henni. — Svo er mál með vexti, að á síðasta þingi voru samþykt lög, og síðan staðfest, um að stofna læknisumdæmi í Norðfirði, en stjórnin hefir til þessa svæft framkvæmd þeirra laga, með því að auglýsa ekki þetta embætti. Nú er mér spurn hvort það er meiningin, að halda áfram þeirri stefnu fyrv. stjórnar að „slá“ ekki „upp“ héruðum þeim, sem stofnuð eru með lögum, því að það getur haft þýðingu um slík mál framvegis að fá að vita hvort stjórnin getur þannig þegjandi myrt lög, sem alþingi hefir samþykt. Og eg veit að eg hermi hér rétt, og hitt líka, að það eru nógir menn sem mundu vilja þetta hérað, því að það er fremur útgengilegt.