05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Tryggvi Bjarnason:

Meiningin með þessu frv. er sú að koma í veg fyrir að jarðeignir í landinu safnist á einstakra manna hendur. En eg er hræddur um að frv. nái ekki þessum tilgangi. Eg vil geta þess, að mér finst það óviðfeldið að uppi sé jafnhliða tvær stefnur í þjóðjarðasölumálinu. Samkvæmt núgildandi lögum hefir ábúandi rétt til að kaupa þá jörð er hann býr á gegn matsverði, eða því verði sem stjórnarráðið ákveður, en verði þetta frv. samþykt, þá hefir landsjóður endurkaupsrétt að frágengnu sveitarfélagi, að jörðum sem hann hefir einu sinni átt. Þetta er því verzlun; landssjóður bæði selur og kaupir jarðir. Mér virðist að ef frv. þetta ætti að ná tilgangi sínum að koma í veg fyrir að jarðir safnist á einstakra manna hendur, þá ætti það að fara lengra en að ná eingöngu til þeirra jarða sem landssjóður hefir einu sinni átt, því að þegar maður er búinn að borga jörð að fullu og landssjóður búinn að afsala sér öllum eignarétti að henni, þá er engu frekar ástæða til að landssjóður hafi forkaupsrétt að henni heldur en að öðrum jörðum sem einstakir menn eiga og landssjóður á eða hefir átt. Enda er það minni hlutinn af jörðum í landinu sem landssjóður á eða hefir átt. Aðrar jarðir gætu alveg eins safnast á einstakra manna hendur, þó þetta frv. yrði að lögum. Eg held að sú leið sem stungið er upp á í frv. til að koma í veg fyrir að jarðir safnist of mjög á einstakra manna hendur, nái ekki eins vel þeim tilgangi, eins og ef sú stefna væri tekin upp að skylda eiganda til að byggja jörðina til ákveðins tíma, ef til vill helst æfilangt. Þetta að skylda mann sem kaupir jörð. til að byggja hana um svo og svo langan tíma, ef hann ekki tekur hana sjálfur til ábúðar, mundi verða til þess að útlendingar og aðrir sem kaupa jarðir aðeins til að „spekulera“ með, mundu síður leggja út í að kaupa. Mönnum finst þetta ef til vill nokkuð hart, en það er full ástæða til að athuga hvort það sé ekki tiltækileg leið til að koma í veg fyrir það sem eg býst við hv. flutn.m. frv. vilji hnekkja með því.