05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Flutn.m. (Stefán Stefánsson):

Mér virtist á ræðu háttv. 2. þm. Hún. (Tr. B.) að hann væri ekki sérlega mótfallinn frv, og þar af leiðandi ekki mótfallinn sjálfsábúð, því að eg álít að frv. stuðli að sjálfábúð. Frv. leggur ekkert óeðlilegt haft á menn, en það mundi aftur verða óeðlilegt haft ef hver sá sem kaupir jörð væri skyldur að byggja hana til lífstíðar. Það mundi vafalaust verða til að fella jarðir í verði. Því að fáir mundu þá vilja eiga jarðir nema eftirspurn eftir þeim væri svo mikil að hægt væri að fá hærri leigu eftir þær en sem nemur peningavöxtum. Eg tel því ráð hans mjög fjarri lagi. Það er alls ekki rétt að hér komi fram tvær ólíkar stefnur þó landssjóður selji jarðir til þess að einstakir menn, sem á jörðunum sitja, og vilja, geti eignast þær, en landssjóður kaupi þær svo aftur í sama tilgangi, nefnilega þeim, að gefa næsta ábúanda kost á að verða sjálfseignarbóndi. Eg hygg að með þessu móti sé fengið ráð til þess að landsstjórn geti stuðlað að því sjálfsábúðin aukist. Ef til vill væri hyggilegra að allar jarðir væru teknar með í frv., en það ætla eg nefndinni að íhuga, eins og eg gat um í fyrri ræðu minni.